Nýtt kjördæmakerfi?

Ég hef ekki orðið var við að nein umræða hafi sprottið varðandi hugmyndir Borgarahreyfingarinnar um nýja skipan kjördæmakerfisins. Þær má lesa í­ stefnuskrá hreyfingarinnar sem birt er hér.

Þetta tómlæti gæti reyndar skýrst af því­ að nýja kjördæmakerfið er ekki útskýrt í­ einföldu máli, heldur verður maður að púsla því­ saman með því­ að lesa kaflann um lýðræðismál.

Grunnatriði í­ kjördæmakerfi Borgarahreyfingarinnar að 4000 manns skuli vera á kjörskrá fyrir hvern einn þingmann. Þannig yrðu þingmenn 49 eða þar um bil – en myndi svo fjölga sjálfkrafa (eða fækka) í­ takt við lýðfræðilegar breytingar á þjóðinni. Þetta er reyndar ekki svo galið, þótt kannski væri vissara að reikna með að fjöldi þingmanna skuli standa á oddatölu.

Athyglisverðara er kanna hvernig gert er ráð fyrir dreifingu þessara þingmanna. Hugmyndirnar reikna nefnilega með því­ að kjördæmin yrðu fjögur talsins. Með því­ að skoða tölurnar yfir kjósendur á kjörskrá sýnist mér að skiptingin yrði á þessa leið:

Norðvesturkjördæmi 4 þingmenn

Norðausturkjördæmi 6 þingmenn

Suðurkjördæmi 6 þingmenn

Höfuðborgarsvæðiskjördæmi 33 þingmenn

Þetta er verulega breytt hugsun frá því­ þegar núverandi kjördæmakerfi var hannað. Þá var reynt að búa til kerfi þar sem kjördæmin yrðu öll álí­ka stór í­ þingmönnum talið. Hér er hins vegar gert ráð fyrir einu risakjördæmi og þremur smákjördæmum.

Það má sjá af stefnuskránni að Borgarahreyfingin gerir ráð fyrir að áfram verði úthlutað jöfnunarþingsætum. Það kemur hins vegar ekki fram hversu mörg þau yrðu og hver dreifing þeirra yrði. Augljóslega hlýtur það þó að skipta máli í­ fámennu kjördæmunum, hvort allir þingmennirnir yrðu kjördæmakjörnir eða hvort hluti þeirra yrðu jöfnunarmenn. Það bí­ður lí­klega nánari útfærslu.

Þessar hugmyndir heilla mig nú ekki. Virka frekar eins og plásturslausn á núverandi kerfi, sem bæti lí­tið en komi fyrir nýjum göllum.

Það má Borgarahreyfingin þó eiga að það er virðingarvert að kynna nýjar tillögur. Og þetta sýnir lí­ka kjark. Það getur varla verið öfundsvert fyrir frambjóðendur hreyfingarinnar í­ landsbyggðarkjördæmunum að útskýra hugmyndir sem fela í­ sér stórfellda fækkun þingmanna úti á landi og risakjördæmi á suðvesturhorninu.