Southampton liggur í því. Enska deildin hefur komist að þeirri óhjákvæmilegu niðurstöðu að draga tíu stig af liðinu fyrir að fara í greiðslustöðvun. Öll önnur afgreiðsla þessa máls hefði leitt til þess að Luton hefði haft unnið mál í höndunum vegna þess hvernig við vorum meðhöndlaðir.
Þegar tvær umferðir eru eftir, er Southampton fjórum stigum frá öruggu sæti (fyrir stigafrádrátt). Takist þeim að vinna þann mun upp, verða stigin tekin af þeim núna. Að öðrum kosti byrjar liðið með mínus tíu stig á næsta ári í gömlu þriðju deildinni.
En þar með er ekki öll sagan sögð. Southampton á enn eftir að finna nýja kaupendur. Ef þeir reynast ekki þeim mun stöndugri, er líklegt að félaginu mistakist að ná samningum við lánardrottna sem enska deildin getur fallist á. Það myndi þýða fimmtán refsistig til viðbótar.
Reyndar sýnist manni að Southampton hafi líka brotið reglur um samskipti móður- og dótturfélags og það á miklu grófari hátt en Luton gerði og uppskar tíu refsistig fyrir. Það ætti því ekki að koma á óvart þótt Southampton byrji næsta tímabil með amk 25 mínusstig. Undir slíku er erfitt að standa…