Tímaritavefurinn er frábær. Nýjasta viðbótin við hann er Denni, blað sem ungir Framsóknarmenn gáfu út um miðjan níunda áratuginn. Þarna er hrært saman Framsóknarpólitík og eitís-tísku á stórskemmtilegan hátt.
Steingrímur Sævarr Ólafsson, sá mikli Framari, var ritstjóri í fyrstu en Hallur Magnússon íbúðalánagúru tók við keflinu. Gaman að þessu. Mættum við fá að sjá meira af gamalli ungliðahreyfingaútgáfu?
Á blaðinu Denna er einnig fjallað um spurningakeppnina Denna. Hún var haldin tvisvar – árin 1986 og 1987, sömu ár og spurningakeppni framhaldsskólanna.
Á Denna svöruðu framhaldsskólanemar spurningum um dægurtónlist. Þegar ég var fyrir mörgum árum að grúska í gömlum framhaldsskólablöðum til að sjá hvað skrifað væri um upphafsár Gettu betur, kom glögglega í ljós að Denna-keppnin var vinsælli en Gettu betur og menn virtust frekar hafa trú á að Denni yrði lífseigur og fastur liður í félagslífi framhaldsskólanna.
Er það ekki dálítið lýsandi fyrir eitísið að spurningakeppni um popptónlist hafi verið í meiri metum en keppni sem reyndi á almennan fróðleik, sögu og bókmenntir?