Aftur til bloggs!

Gamla WordPress-uppfærslukerfið var víst orðið dálítið úrelt og neitaði að lokum að leyfa mér að setja inn færslur. Nú hefur Palli kippt því í liðinn og síðan er aftur orðin virk – þótt einhverjar eldri færslur séu enn í hassi.

Fyrir vikið hafa lesendur misst af ýmsum snjöllum bloggum sem aldrei verða skrifuð – svo sem spádómum mínum um hversu langt mun líða uns Vef-Þjóðviljinn fer að pirra sig á þáttunum um Fróða og félaga sem eiga að kenna börnum umhverfisvernd. Spái viku.

# # # # # # # # # # # # #

Á morgun er SHA með félagsfund:

Rússland hefur komið mikið við sögu alþjóðamála upp á síðkastið. Miðvikudagskvöldið 20. maí kl. 20 efna Samtök hernaðarandstæðinga til félagsfundar í Friðarhúsi þar sem fjallað verður um Rússland og stöðu þess í alþjóðasamfélaginu.

Framsögumaður verður Haukur Hauksson, magister í alþjóðamálum frá Moskvuháskóla, þaulreyndur fararstjóri og fyrrum fréttaritari RÚV í Moskvu. Allir velkomnir.

# # # # # # # # # # # # #

Fékk Amazon-sendingu í dag. Þar var m.a. Flowers með Echo & the Bunnymen. Átta ára gamall diskur sem vantaði í safnið. Ekki þeirra besta verk, en allt í lagi.

Svo var reytingur af teiknimyndasögum, s.s. Fláráður stórvesír á ensku – tvær bækur sem ég hef ekki lesið. Og svo lítilræði af Lukku Láka, bókum sem ekki hafa komið út á íslensku og sem ég ýmist á ekki eða á bara á þýsku eða þaðan af verra. Engin stórvirki þar á ferð.

Og já, svo fékk ég mér Tinnabókina sem Hergé náði ekki að klára fyrir andlátið. Sérviskulegt verk.