Góðar fréttir fyrir Framara

Það var ánægjulegt að heyra í sjónvarpsfréttunum í kvöld að borgin sé á höttunum eftir fimm milljarða láni til mannaflsfrekra framkvæmda. Slíkar fréttir eru góðar í þessu atvinnuástandi og jákvætt að borgin treysti sér til þess að ráðast í slíkt átak.

Fyrir okkur Framara er það sérstaklega jákvætt að samkvæmt fréttinni kæmist bygging skóla og leikskóla í Úlfarsárdal aftur á dagskrá. Uppbygging félagssvæðis Knattspyrnufélagsins Fram í Úlfarsárdal hangir nefnilega að miklu leyti saman við uppbyggingarhraða skólamannvirkja á svæðinu.

Hugmyndin er að íþróttahús félagsins muni jafnframt þjóna skólanum í hverfinu. Það þýðir að ekki má líða langur tími frá því að skólinn tekur til starfa uns íþróttahúsið þarf að vera nothæft.

Ýmis réttlætisrök eru fyrir því að borgin reyni, þótt fjárhagurinn sé þröngur, að gera vel við íbúa þessa nýjasta hverfis – sem og Grafarholtsins. Fólkið sem byggt hefur í Úlfarsfellinu greiddi hærra lóðarverð til borgarinnar en íbúar nokkurra annarra hverfa. Það er því sérstaklega blóðugt fyrir hverfið að innviðirnir séu svo veikir sem raun ber vitni og keyra þurfi börn langar vegalengdir í skóla.

Í þessu hverfi – og í Grafarholtinu – er væntanlega líka talsvert hátt hlutfall fjölskyldna sem á nú í verulegum vandræðum vegna húsnæðisskulda. Kreppan kemur misjafnlega niður á einstökum hverfum. Gömlu og grónu hverfin finna miklu síður fyrir henni en nýju byggðirnar. (Reyndar væri fróðlegt að sjá tölfræðilega samantekt á þessu.)

Í ljósi þessa, finnst mér eðlilegt að borgin leggi sitt af mörkum til að létta íbúum skuldsettari hverfanna lífsbaráttuna með því að leitast við að styrkja sérstaklega þjónustu á borð við félags- og menningarmiðstöðvar, bókasöfn, sundlaugar og íþróttasvæði í slíkum hverfum. Það er t.d. forkastanlegt að Grafarholtið sé orðið nærri tíu ára gamalt og með íbúafjölda á við Ísafjarðarbæ, en ENGA íþróttamiðstöð.

Úthverfin eiga að fá forgang í þessu árferði – við í gömlu hverfunum eigum að bíða að sinni!