Misskilin umhyggja

Forsvarsmaður Stúdentaráðs Háskólans skrifaði grein í Fréttablaðið í morgun, til að svara athugasemdum Hildar Lillendahl varðandi gjaldskyld bílastæði við HÍ.

Í stuttri grein kom stúdentaleiðtoginn því að í tvígang að baráttan gegn stöðumælum tæki sérstaklega mið að hagsmunum fatlaðra námsmanna. Það er ekki í fyrsta sinn sem þessu er haldið fram.

Nú get ég alveg haft einhverja samúð með þessari baráttu Stúdentaráðs – sjálfur hef ég verið bílandi námsmaður (og kennari) við Háskólann og finnst eins og öðrum ekkert gaman að eyða allri minni smámynt í stöðumæla. En fötluðu stúdentana getur Stúdentaráð ekki falið sig á bakvið.

Fatlaðir ökumenn fá þar til gert spjald til að setja í glugga bifreiða sem þeir aka eða ferðast með. Þetta spjald gefur þeim rétt til að leggja í stæðum sem eru sérmerkt fötluðum OG að leggja gjaldfrjálst í öllum stöðumælastæðum.

Það þýðir að út frá ferlimálum fatlaðra, væri það sérstakt fagnaðarefni ef stöðugjöld yrðu tekin upp á Háskólasvæðinu. Þannig myndu fatlaðir ökumenn fá aukinn forgang að miklu fleiri bílastæðum en nú er.

Þetta mætti SHÍ-oddvitinn gjarnan hafa í huga fyrir næstu grein…

Join the Conversation

No comments

 1. Í óvenju hrokafullri grein í Fréttablaðinu í dag, svarar framkvæmdastjóri Stúdentaráðs Háskóla Íslands gagnrýni Hildi Lillendahl á herferð SHÍ gegn bílastæðagjöldum.

  Það er hægt að finna að mörgu í þessari fremur fáránlegu grein, en einn punktur er sérstaklega absúrd. Í grein framkvæmdastjórans segir m.a.:

  „Greinarhöfundur sakaði forsvarsmenn stúdentaráðs um rangfærslur í undirskriftasöfnun sinni, og sagði rangt vera að allur ágóði gjaldskyldunnar myndi renna til bílastæðasjóðs. Einnig rengir greinarhöfundur að heimildir þessar hafi komið frá Ingjaldi Hannibalssyni á fundi hans með fulltrúum ráðsins. Í viðtali sem birtist á student.is stuttu eftir umræddan fund segir Ingjaldur orðrétt: „Þessi aðgerð er ekki gerð til að afla háskólanum tekna en bílastæðasjóður mun reka þjónustuna og sjá um alla framkvæmd.“ Svo mörg voru þau orð.“

  Þegar maður skoðar hins vegar viðtalið sem hann vísar í á Stúdent punktur is, kemur í ljós að svona mörg voru orðin ekki. Þau voru aðeins fleiri. Í fréttinni er þetta haft eftir Ingjaldi:

  „Þessi aðgerð er ekki gerð til að afla háskólanum tekna að sögn Ingjalds Hannibalssonar framkvæmdastjóra rekstrar- og framkvæmdasviðs Háskóla Íslands. Bílastæðasjóður muni reka þjónustuna og sjá um alla framkvæmd. Ef afgangur er af gjöldunum eftir að kostnaður er dreginn frá mun sjóðurinn og Háskóli Íslands skipta honum milli sín. Hugsanleg hlutdeild háskólans færi í að bæta samgöngur á svæðinu, eins og hjóla- og göngustíga og aðstöðu við biðskýli. Það verði þó engin sérstök tekjulind.“

  Það er ótrúlegt að framkvæmdastjóri Stúdentaráðs HÍ skuli leyfa sér að vera svona hrokafullur í grein sem beint er að „óbreyttum stúdent“ innan HÍ, slíkt er merki um alvarlegan persónuleikabrest. Hann gengur hins vegar lengra en það að vera almennt dónalegur í greininni, hann beinlínis lýgur til að ná höggi á stúdentinn. Slíkur einstaklingur á einfaldlega ekkert með að vera í forsvari fyrir hagsmunasamtök stúdenta.

  Tengill á greinina á stúdent.is:

  http://www.student.is/frettir_studentatorgs/gjaldskyldur_haskoli

 2. Þetta eru náttúrlega ótrúleg vinnubrögð.

  Í hvaða námi er þessi maður við Háskólann?

  Það er illa komið fyrir Stúdentaráði ef svona aðferðir fá að líðast.

 3. Það hefur komið betur í ljós að stúdentaráði er sama um flest það sem snýr að menntun, kennslu eða gæðum. Hugmyndir þeirra um réttindi – en ráðið virðist sjaldan tala um skyldur – snúa öll að efnahags-og fjárhagslegum þáttum í þröngum skilningi. Kannski er það ekki skrýtið, stúdentaráðsliðar eru afurð þess þjóðfélags sem þau koma úr. Þeir eru af síngjörnu græðgiskynslóðinni.

  Hann er stjórnmálafræðinemi samkvæmt uglunni, einhvern veginn kemur það ekki a óvart.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *