Misskilin umhyggja

Forsvarsmaður Stúdentaráðs Háskólans skrifaði grein í Fréttablaðið í morgun, til að svara athugasemdum Hildar Lillendahl varðandi gjaldskyld bílastæði við HÍ.

Í stuttri grein kom stúdentaleiðtoginn því að í tvígang að baráttan gegn stöðumælum tæki sérstaklega mið að hagsmunum fatlaðra námsmanna. Það er ekki í fyrsta sinn sem þessu er haldið fram.

Nú get ég alveg haft einhverja samúð með þessari baráttu Stúdentaráðs – sjálfur hef ég verið bílandi námsmaður (og kennari) við Háskólann og finnst eins og öðrum ekkert gaman að eyða allri minni smámynt í stöðumæla. En fötluðu stúdentana getur Stúdentaráð ekki falið sig á bakvið.

Fatlaðir ökumenn fá þar til gert spjald til að setja í glugga bifreiða sem þeir aka eða ferðast með. Þetta spjald gefur þeim rétt til að leggja í stæðum sem eru sérmerkt fötluðum OG að leggja gjaldfrjálst í öllum stöðumælastæðum.

Það þýðir að út frá ferlimálum fatlaðra, væri það sérstakt fagnaðarefni ef stöðugjöld yrðu tekin upp á Háskólasvæðinu. Þannig myndu fatlaðir ökumenn fá aukinn forgang að miklu fleiri bílastæðum en nú er.

Þetta mætti SHÍ-oddvitinn gjarnan hafa í huga fyrir næstu grein…