Svínaflensan

Heilbrigðisyfirvöld bera sig borginmannlega varðandi svínaflensuna. Talað er um strangar viðbragðsáætlanir, samráðsfundi sérfræðinga og geypimagn af lyfjum sem liggi á lager sjúkrahúsanna. Reglulega má heyra viðtöl við faraldursfræðinga sem ræða um spænsku veikina og hvort stóri skellurinn komi í haust.

Á sama tíma hangir uppi blað á hverjum einasta leikskóla Reykjavíkur, undirritað af borgarstjóra eða formanni leikskólaráðs. Þar kemur fram að verið sé að spara í rekstrinum og þess vegna eigi að skipta út bréfþurrkum fyrir handklæði.

Allir sem hafa átt barn á leikskóla vita að þær stofnanir eru öflugasta dreifingarmiðstöð samfélagsins fyrir hvers kyns pestir. Ef heilbrigðisyfirvöld væru í alvörunni hrædd um að svínaflensan geti orðið næsta spænska veikin, þá myndu þau vitaskuld leggja blátt bann við þessari sparnaðaraðgerð borgarinnar. Meðan það er ekki gert, hlýtur maður að fá á tilfinninguna að læknarnir séu bara að spila með í fjölmiðlasirkusnum, gegn betri vitund.

Gaman væri reyndar að vita hversu marga Tamiflu-skammta má kaupa fyrir bréfþurrku-sparnaðinn. Eitthvað segir mér að sá útreikningur sé ekkert sérstaklega þjóðhagslega hagkvæmur.

Join the Conversation

No comments

 1. Verðið þið ekki bara að fara að senda Ólínu með eigið handklæði eða eldhúsrúllu á leikskólann alveg eins og hún þarf núna að mæta með eigin sólarvörn? Og gætu börnin ekki líka komið með eigið sápustykki svo leikskólarnir geti lagt meira af mörkum til að borga sukk útrásar-víkinganna?
  Ég held reyndar að þessi flensuhystería hafi fyrst og fremst þau áhrif að valda Mexikóum fjárhagslegum erfiðleikum og skila auknum gróða í vasa lyfjaframleiðenda með því að hræða fólk til að birgja sig upp af lyfjum á borð við Tamiflu.

 2. Það er nú bara þannig að það er harður niðurskurður á leikskólum eins og öðrum stofnunum Reykjavíkurborgar (veit ekki um Orkuveituna). Vinkona mín sem vinnur á einum leikskóla borgariinnar var að segja mér frá ýmsum sparnaðaraðgerðum á hennar skóla. Meða annars á enginn matur að vera á starfsmannadögum, þá getur starfsfólkið með nesti. Svo var breytt um viðmiðunarmánuð milli deilda til að færa krakka á milli eftir aldri því þannig sparaðist einn starfsmaður. Þær eru ansi margar matarholurnar svo það kemur mannig ekki á óvart.
  Svo vitum við vel að við fáum aldrei sukkpeninga útrásarvíkinganna til baka og ekki er ég viss um að varnaðaraðgerðir gegn flensku séu óráðsía en það er annað mál.

 3. Sólarvörnin var skorin niður á okkar leikskóla. Það þýðir að nú á hver krakki að koma með sína eigin sólarvörn. Þetta þýða hins vegar miklu meiri hlaup fyrir starfsfólkið, sem þarf að seilast eftir jafnmörgum sólarvarnarbrúsum og börnin eru mörg…

  Skömminni skárra væri þá að við foreldrarnir skytum saman í púkk og keyptum kremið sameiginlega – en það vantar vettvanginn til að skipuleggja slíkt.

 4. Vantar vettvanginn? Félagsmálatrölli af þínu kalíberi ætti nú ekki að verða skotaskuld úr því að fá foreldrana með í sameiginleg innkaup. Já, hægt að berjast gegn hersetu, en nei sólarvarnarbrúsinn er of mikið?

 5. Ef ég gef mitt álit á þessu, verandi hinum megin við borðið, þá finnst mér þetta vera betri aðferð, þ.e. að foreldrar komi með vörn fyrir sitt barn. Fólk hefur mismunandi kröfur þegar kemur að gerð og styrkleika varnarinnar og sumum þykir þetta vera snyrtilegra. Og ég held að hlaupin og vesenið sé nú ekki til mikilla trafala, hef allavega ekki tekið eftir því þar sem ég vinn.

  En svona að því sögðu þá er alltaf til sólarvörn hjá frá skólanum sjálfum til öryggis.

  En varðandi vettvanginn, er ekki foreldrafélag sem hægt væri að virkja í svona?

 6. sjálfur hef ég alltaf komið með sólarvörn handa mínu barni og finnst það allt í lagi. Handklæði eru notuð á leikskóla hennar Eybjartar minnar og mér finnst það í góðu lagi, óþarfi að vera henda til endausum pappírsþurrkum og ekki hefur hún orðið veikari fyrir vikið enda þrífur maður ekki skítinn með handklæðinu sá verknaður er framkvæmdur í vaskinum og svo þurrkar maður bleytuna í handklæðið. Hvort þetta sé aftur á móti einhver geigvænlegur sparnaður dreg ég í efa.

 7. Það að skipta handklæðum út fyrir pappírsþurrkur er nú engu að síður einna efst á lista Landlæknis yfir fyrirbyggjandi aðgerðir gegn flensunni. Þess vegna er kyndugt að leikskólarnir fari í þveröfuga átt.

 8. Borgin hefði betur kallað þetta ‘grænt skref’ … annars er ég alltaf hrifnastur af taurúllugræjunni sem býður upp á ferskt og brakandi handklæðisbút fyrir hvern klósettgest.

 9. Þetta er mjög undarlegt. Í fyrsta lagi þá er það hæpinn sparnaður að vera með handklæði. Það þarf að kaupa þau og þvo. Varla er það ókeypis.
  Í öðru lagi þá hélt ég að heilbrigðiseftirlitið bannaði handklæði á svona opinberum stöðum. Það þarf ekki svínaflensu til. Ég efast stórlega um að leikskólabörn þvoi hendur sínar sérstaklega vel eftir klósettferðir. Njálgur t.d. smitast mjög auðveldlega í almennings handklæðum.
  Ég legg til Stefán að þú kannaðir hjá heilbrigðisyfirvöldum hvort þetta sé löglegt. Ég stórefast um það.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *