Kolröng frétt í DV

DV í dag birtir langa frétt um viðskipti Frjálsrar miðlunar (fyrirtækis dóttur Gunnars Birgissonar og eiginmanns hennar) við Orkuveituna. Þar er á nokkrum stöðum vikið að Minjasafninu – og í öllum tilvikum tekst blaðinu að fara rangt með.

Blaðamaðurinn, Ingi F. Vilhjálmsson, hefur á liðnum dögum skrifað um viðskipti Frjálsrar miðlunar við Kópavogsbæ og Lánasjóðinn – þar sem Gunnar Birgisson, faðir annars eigandans, kunni að hafa beitt áhrifum sínum fyrirtækinu í hag. Gunnar er bæjarstjóri í Kópavogi og fv. stjórnarformaður LÍN.

Að þessu sinni beindi DV sjónum sínum að viðskiptum Frjálsrar miðlunar við Orkuveituna. Þau munu vera upp á 4,6 milljónir á árabilinu 2002-2009. Ég veit ekkert um þessi viðskipti og hef engar forsendur til að meta hvort þau séu mikil, lítil, reikningarnir háir eða lágir og hvort eðlilega hafi verið staðið að samningsgerðinni. Að mestu mun þetta snúast um ljósmyndavinnu, s.s. fyrir ársskýrslur, bæklinga og aðra útgáfu.

Mistök blaðamannsins felast hins vegar í því að reyna að færa „skandalinn“ úr fyrri fréttum óbreyttan yfir á OR-viðskiptin – það er, að í þessu tilviki eins og hinu fyrra hafi faðir annars eigandans kippt í spotta til að tryggja viðskiptin. Í yfirfyrirsögn segir meðal annars: „Verk frá Orkuveitunni voru fengin í gegnum föður annars eigandans sem starfað hefur frá fyrirtækinu.“

Þetta er meiriháttar klámhögg.

Guðmundur Egilsson, vinur minn og forveri í starfi safnvarðar á Minjasafni Orkuveitunnar (þá Rafmagnsveitunnar), fór á eftirlaun árið 1998. Hann hefur síðan gripið í smávægileg verkefni sem verktaki, enda þykir honum ákaflega vænt um safnið sem hann hefur öðrum mönnum fremur staðið að því að byggja upp. Síðastliðin tíu ár hefur Guðmundur því ekki haft nokkur einustu áhrif á það hverja Orkuveitan kýs að skipta við. Sú hugmynd að hann valsi um og skipi yfirmönnum í Orkuveitunni að fela einstökum fyrirtækjum samninga er geggjuð sem mest má vera.

Að blaðamaðurinn sjái einhver líkindi með aðstöðu bæjarstjóra og stjórnarformanns ríkisstofnunnar annars vegar – en safnvarðar á eftirlaunum hins vegar er í sjálfu sér nógu fráleitt.

Það veikir auðvitað þessa delluhugmynd enn frekar að verkefni þau sem Frjáls miðlun hefur unnið fyrir Orkuveituna, tengjast Minjasafninu ekki á nokkurn hátt. Til að búa til einhver tengsl, eru tvö atriði þó tínd til í fréttinni – sem hvorugt stenst nánari skoðun.

Annars vegar er staðhæft að á Minjasafninu sé „meðal annars að finna möppu með ljósmyndum sem Frjáls miðlun tók á sínum tíma“. Þetta er einfaldlega rangt. Slík mappa er ekki á Minjasafninu og hefur ekki verið þar – enda geymir Minjasafnið eðli málsins samkvæmt fremur gamla gripi og ljósmyndir en glæný ljósmyndaverkefni frá auglýsingastofum útí bæ.

Hins vegar er í greininni að finna alvarlega ásökun, þar sem segir: „Guðmundur mun meðal annars hafa lagt hart að Guðjóni Magnússyni, sem er yfir umsýslu og almannatengslum hjá Orkuveitunni, að ráða Frjálsa miðlun til að skrásetja alla muni Minjasafnsins fyrir um fimm árum, samkvæmt heimildum DV. Ekki var þó ráðist í þessa skráningu á endanum.“

Þessi fullyrðing er algjörlega út í hött. Ég var ráðinn í starf safnstjóra árið 1998 og upp frá því hefur ákvörðunin um hvernig standa skyldi að skráningu safnkostsins verið í mínum höndum. Um aldamótin tókum við sem stýrt höfum minjavarðveislu hjá stóru orkufyrirtækjunum (Orkuveitunni, Landsvirkjun og Rarik) þá ákvörðun að minjaskráningin skyldi vera samræmd. Þá þegar stefndum við að því að koma okkur inn í Sarp, miðlægt skráningarkerfi Þjóðminjasafnsins fyrir íslensk minjasöfn.

Innleiðing kerfisins tafðist um nokkur misseri, þar sem beðið var eftir nýrri uppfærslu á Sarpi, en aldrei var hvikað frá markmiðinu um sameiginlega skráningu – helst í Sarpi. Allar vangaveltur um að til hafi staðið að semja við Frjálsa miðlun um skráningu um 2003-04 eru því úr lausu lofti gripnar, eins og ég hef fengið staðfest í dag.

Ég hef sem fyrr segir engar forsendur til að meta samninga OR við Frjálsa miðlun. Það er væntanlega einstaklingsbundið hvort menn telji 4,6 milljónir yfir sjö ára tímabil mikið eða lítið og ekki veit ég hvernig þessar upphæðir líta út í samanburði við önnur ljósmyndaverkefni á tímabilinu. En hitt veit ég, að sú tilgáta blaðamannsins að verkefnin séu tilkomin vegna þrýstings frá Guðmundi Egilssyni er gjörsamlega galin. Guðmundur má ekki vamm sitt vita og hefði aldrei lagt sig niður við slík brögð – fyrir utan að hann hefur einfaldlega ekki verið í neinni aðstöðu til slíkra hluta. Svona vinnubrögð í blaðamennsku eiga ekki að sjást.