Bananar

Ég skrifaði um það á dögunum að ég hafi komist í að skoða bananaræktina í gömlu gróðurhúsunum við Garðyrkjuskólann í Hveragerði. Það er mögnuð upplifun að ganga inn svona hitabeltisskóg og þræða stíga milli kaktusa og risaplantna með torkennilegum blómum og ávöxtum. Ferðamennirnir sem voru með í för áttu ekki orð – þeim fannst þetta svo merkilegt.

Mér skilst að vöxturinn sé ennþá meiri í nýrri húsunum sem notast við góða raflýsingu.

Hvers vegna er ekki samsvarandi hús í Reykjavík fyrir ferðalanga jafnt sem heimamenn? Liggur ekki beint við að koma upp svona húsi í Laugardalnum, í tengslum við grasagarðinn. Með því að spara ekki heita vatnið og rafmagnið eru nánast hægt að rækta hvað sem er í svona húsum.

Reyndar stóð upphaflega til að búa til einhvers konar hitabeltisumhverfi í Perlunni, en þau áform fóru fyrir lítið. Þar voru aðstæður líka um margt erfiðar – ekki hvað síst vegna lofthæðarinnar. Heitt loft hefur nefnilega þessa leiðinlegu tilhneigingu til að leita upp í loft.