Taka hús

Þegar ég var á fyrsta eða öðru ári í menntó komst í tísku að tala um að „taka hús“ á einhverjum. Gott ef einhver sjónvarpsfréttamaðurinn byrjaði að nota þennan frasa og fljótlega heyrði maður þetta út um allt.

Íslenskukennarinn minn lét þetta fara í taugarnar á sér og hélt því fram að sá sem „tæki hús“ á einhverjum, hefði ekkert gott í hyggju. Þvert á móti væri hann líklegur til að brjótast inn, rífa í skeggið á húsráðanda eða það sem verra er.

Minnugur þessa, hef ég upp frá þessu látið frasann pirra mig og forðast hann eins og heitan eldinn.

Engu að síður hef ég heyrt marga góða íslenskumenn nota þetta orðalag, eins og ekkert væri sjálfsagðara. Því velti ég því fyrir mér hvað sé rétt í málinu? Eru það bara fól sem taka hús á öðru fólki eða er merkingin sakleysislegri?