Í Edinborg eru tvö fótboltalið sem ná máli: Hearts og Hibernian. Það fyrrnefnda er tengt við prótestanta en hitt við kaþólikka – þótt í dag ráði hverfaskiptingin í raun mestu um hvorn klúbbinn Edinborgarbúar styðja.
Til skamms tíma var Meadowbank Thistle þriðja liðið í borginni. Það gaf sig út fyrir að vera liðið sem neitaði að taka þátt í þrefi trúarhópanna tveggja, svipað og Partick Thistle í Glasgow. Skoskir þjóðernissinnar hafa verið hallir undir Thistle-félögin.
Árið 1995 var Maedowbank Thistle „stolið“. Félagið var flutt í einu lagi til útborgarinnar Livingston – sem er fyrst og fremst þekkt fyrir að vera heimkynni aðal IKEA-verslunar Skota. Félagið skipti um merki, búning og nafn. Livingston, eins og það hét eftir flutninginn, sankaði að sér leikmönnum og skaust upp í efstu deild á örskömmum tíma.
Nú virðist ævintýrið senn á enda. Livingston hefur aldrei náð fótfestu og áhorfendafjöldinn hefur ekki verið í samræmi við annars þokkalegt gengi. Utan vallar hefur allt verið í skralli. Félagið hefur lent einu sinni í nauðarsamningum og skipt tvisvar um eigendur. Núna virðist allt farið aftur í sama farið og allnokkrar líkur á að félaginu verði einfaldlega slitið.
Kunni svo að fara að Livingston verði fellt út úr skosku deildarkeppninni, koma tvö félög – sem bæði eru frá Edinborg – sterklega til greina í þess stað. Annars vegar Spartans FC en hins vegar Edinburgh City FC. Síðarnefnda félagið var upphaflega stofnað sem áhugamannafélag og átti að samsvara hinu sögufræga liði Queens Park frá Glasgow. Í seinni tíð hefur það hins vegar snúið baki við áhugamennskuhugsjóninni.
Það væri skáldlegt réttlæti fólgið í því ef Edinborg City verður þriðja Edinborgarliðið í deildarkeppninni – því stuðningsmenn Meadowbank sneru sér margir hverjir til þeirra þegar gamla félaginu var stolið. Þeir eiga alveg skilið að eignast lið í deildarkeppninni á ný.