Ákveða sig, takk!

Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér í rökræðum en þegar fólk notar ólík rök máli sínu til stuðnings – sem stangast á innbyrðis. Þegar svo stendur á, verða menn að gjöra svo vel að velja.

Dæmi: Búhú, fótboltaliðið mitt tapaði leiknum! Þetta er allt samsæri, KSÍ-mafían er á móti okkur og vill koma liðinu niður um deild. Dómararnir hata okkur allir sem einn og við fáum aldrei víti… auk þess sem þjálfarinn klúðraði þessu alveg með því að nota Gumma sem bakvörð þótt allir viti að hann ætti að spila hafsent og ef Svenni hefði ekki þurft að fara útaf á 70.mínútu hefðum við örugglega unnið!

Hér stendur valið augljóslega á milli tveggja orsakaskýringa: samsæris EÐA taktískra mistaka þjálfarans/óheppni. Ákveða sig, takk!

Í deilunum um Icesave ber talsvert á þessu vandamáli.

Menn geta teflt fram ýmsum rökum gegn Icesave-samningunum. Til dæmis að:

i) Hér sé ekki um frjálsan samning að ræða, heldur kúgun tveggja stórþjóða á smáríki. Kúgun sem endurspegli sögu þessara ríkja sem nýlenduvelda og þá staðreynd að Íslendingar hafi verið komnir í ræsið og ekki getað borið hönd fyrir höfuð sér.

og

ii) Að samninganefnd Íslands hafi ekki staðið sig í stykkinu, verið illa mönnuð, vanbúin og klúðrað því að draga fram pottþétt rök okkar í málinu. Því sé um að gera að hafna samningunum, skipa nýja samninganefnd og koma aftur með nýjan og betri díl.

Það er hægt að rífast fram og til baka um þessar fullyrðingar. Það getur meira en verið að Bretar og Hollendingar séu níðingar sem hafi ekki boðið upp á neinar alvöru samningaviðræður. Það getur líka vel verið að íslenska samninganefndin hafi fokkað þessu upp – en fjandinn hafi það, önnur röksemdafærslan útilokar sjálkrafa hina!

Þeir sem telja Hollendinga og Breta vera fól sem láti stjórnast af annarlegum hvötum – hljóta jafnframt að álíta að framganga samninganefndarinnar hafi litlu máli skipt og því tilgangslítið að setjast aftur að samningaborðinu. Og hinir, sem telja reynsluleysi og aulagang íslensku nefndarinnar hafa ráðið mestu um niðurstöðuna, hljóta jafnframt að viðurkenna að viðsemjendurnir gefi færi á heiðarlegum samningum á jafnréttisgrundvelli. Er það ekki nokkuð augljóst?

Það er um að gera að fólk haldi áfram að gagnrýna Icesave – en þá verða menn líka að velja útgangspunktinn. Annað hvort er vondi kallinn Svavar Gestsson EÐA Gordon Brown, ekki báðir.