Brunahanar

Reykvískir brunahanar eru gulir og rauðir. Þannig hefur það verið lengi. Ég veit reyndar ekki hversu lengi (það væri gaman að vita það) – en ef ég ætti að giska myndi ég segja frá því fljótlega uppúr stríði. Fyrirmyndin er þá væntanlega bandarískir brunahanar sem mér skilst að hafi snemma fengið þennan lit.

Utan Reykjavíkur er algengt að sjá bláa brunahana. Það skilst mér að sé smkv. Evrópustaðli sem segir að brunahanar skuli vera ljósbláir.

Núna er ég staddur í Neskaupstað. Þar eru brunahanarnir rauðir. Sannast sagna gleymdi ég að tékka á því á Eskifirði og Reyðarfirði hvort hanarnir séu eins á litinn þar – eða hvort þetta sé einhver langsótt vísun í rauða fortíð bæjarins… Skoða það betur á morgun.

En hvernig er þessu almennt háttað á landinu? Eru rauðir brunahanar víðar en á Norðfirði? Er blái liturinn að taka yfir? Hvernig er þetta á helstu stöðum? – Athugasemdakerfið er opið.

# # # # # # # # # # # # #

Luton kynnti í kvöld nýjan búning og aðalstyrktaraðila félagsins.

Aðalbúningurinn verður appelsínugulur í stað þess að vera hvítur og svartur. Það er gleðiefni.

Sponsörinn er easyJet – sem þykja mikil tíðindi í utandeildarboltanum. Þar eiga menn ekki því að venjast að alþjóðleg stórfyrirtæki séu aðalauglýsendur. Það bendir allt til að stjórnendur Luton ætli að leggja mikið í sölurnar að komast upp í fyrstu tilraun. Hættan er sú, að þegar menn reyna slíkt er alltaf sá möguleiki fyrir hendi að það mistakist og að félagið standi enn verr að ári. En stemningin er frábær – þúsund fleiri ársmiðar seldir en í fyrra og æfingaleikirnir búnir að fara ágætlega…