Enn af Chester City (b)

Fastir lesendur þessarar síðu ættu að muna eftir fleiri en einni og fleiri en tveimur færslum um Chester City – liðið sem féll með okkur úr deildarkeppninni síðasta vor. Félagið er í eigu manns sem er nánast ótíndur glæpamaður (jafnvel á mælikvarða íslenskra útrásarvíkinga).

Gjaldþrot og jafnvel endalok félagsins hafa lengi virst í kortunum. Atburðir síðustu sólarhringa benda til að sú verði líklega raunin.

Það er vika í að utandeildarkeppnin (BSP) hefjist. Chester hafði fengið keppnisleyfi, enda laust úr greiðslustöðvun síðan í júní. Lið fá ekki að hefja keppni í BSP meðan þau eru í greiðslustöðvun.

Þegar kom að fyrstu æfingarleikjum Chester fyrir tímabilið, kom hins vegar babb í bátinn. Enska knattspyrnusambandið neitaði þeim um leikheimild, sem þýðir að öllum aðildarfélögum sambandsins er bannað að leika við Chester að viðlögðum þungum refsingum. Fyrst hélt félagið því fram að um smávægileg mistök við útfyllingu pappíra væri að ræða og málinu yrði kippt í liðinn snarlega. Síðan hefur hver dagurinn liðið og nú er ljóst að Chester mun ekki ná einum einasta æfingarleik áður en mótið byrjar. Og fái félagið ekki leikheimildina á næstu átta dögum getur það ekki mætt til fyrsta leiks.

Annað og verra áfall reið yfir félagið þegar dómstóll ógilti nauðarsamninga þess í gær eða fyrradag. Til að nauðarsamningar fáist samþykktir þurfa eigendur 75% krafna að fallast á þá. Það virtist auðsótt í þessu tilviki, þar sem Vaughan – gamli eigandinn – skráði klúbbinn á son sinn og var sjálfur skráður eigandi að 75% krafnanna. Þessu hefur dómstóllinn nú hafnað og skattayfirvöld eru nú í aðstöðu til að hafna nauðarsamningum, eins og þau munu gera samkvæmt prinsipi.

Það þýðir að Chester telst aftur komið í greiðslustöðvun og flókin lagaleg klemma er komin upp. Ef stjórn BSP-deildarinnar lítur svo á að um nýja greiðslustöðvun sé að ræða, getur hún gripið til þess að senda liðið beint niður um eina til tvær deildir, í það minnsta. Þá mun liðunum í deildinni einfaldlega fækka um eitt í vetur. Önnur leið er sú að leyfa Chester að spila – en fyrir liggi að félagið muni falla niður um deild óháð árangri vetrarins.

Kjósi deildin að líta svo á að um sömu greiðslustöðvun sé að ræða og að deildin hafi sjálf gert mistök með því að veita keppnisleyfið, er sá möguleiki fyrir hendi að heimila félaginu að hefja leik – en setja skilyrði um að nauðarsamningar náist t.d. innan 2-3 mánaða, að öðrum kosti yrði liðið látið hætta keppni. Það er ólíkleg niðurstaða.

Þá er sá möguleiki fyrir hendi að félagið skipti um eigendur á þeirri rúmu viku sem til stefnu er og að samningar náist við skattinn. Það er langsótt en ekki útilokað.

Hvað sem öðru líður eru stuðningsmenn Chester City ansi aumir um þessar mundir.