25. skiptið

Kertafleyting friðarhreyfinganna í minningu kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki verður haldin kl. 22:30 á fimmtudagskvöld við Reykjavíkurtjörn.

Þetta verður í tuttugasta og fimmta skiptið sem kertum verður fleytt á Tjörninni að þessu tilefni. Ætli ég hafi ekki náð svona 22-23 fleytingum. Missti reyndar af fyrsta skiptinu, 1985.

Þótt ég hafi verið viðloðandi þessa aðgerð núna í tæpan aldarfjórðung, hef ég ekki flutt ávarp. Var reyndar fundarstjóri fyrir margt löngu – að mig minnir í forföllum einhvers annars. En núna flyt ég sem sagt ávarpið. Er kominn með smá fiðrildi í magann.

Annars er það sérstaklega gleðilegt að kertafleytingar verða haldnar á nýjum stöðum í ár. Auk Akureyrar, sem verið hefur með í rúman áratug, verða aðgerðir á Egilsstöðum og í Vestmannaeyjum.