Borðspil

Um daginn fékk ég fyrirspurn frá miklum spilaáhugamanni sem hafði rambað á það á netinu að ég ætti Kjördæmaspilið frá 1959. Sá var einmitt á höttunum eftir reglunum fyrir þetta ágæta spil (en mun verða fyrir vonbrigðum, þar sem reglurnar ganga ekki upp).

Í kjölfarið benti hann mér á vefsíðu þar sem búið er að setja inn upplýsingar um fjölda íslenskra borðspila. Þetta er flott samantekt (reyndar stöff sem ætti heima á Wikipediu) og vekur margar skemmtilegar minningar. Sjálfur var ég mikill aðdáandi Íslenska efnahagsspilsins sem var fullt af góðum verðbólgu- og gengisfellingarbröndurum.

Þar sem lesendur þessa bloggs eru fjölfróðir um flest milli himins og jarðar, væri gaman að fá athugasemdir hér að neðan varðandi þessa borðspilaskrá – fyllri upplýsingar og skemmtilega fróðleiksmola. Sjálfur sakna ég t.d. Fótboltaspils Brands Brynjólfssonar frá 1944/45, sem var spilastokkur með myndum af knattspyrnumönnum í búningum Víkings, Fram, KR og Vals ásamt skrítnum reglum.