Megrahi

Líbýumaðurinn Megrahi, sem dæmdur var fyrir að sprengja upp farþegaþotuna í Lockerbie-harmleiknum, verður líklega látinn laus á morgun af heilsufarsástæðum.

Fyrir tæpum áratug sökkti ég mér ofaní réttarhöldin yfir Megrahi. Það var allt hið furðulegasta.

Atburðarásin sem saksóknarinn dró upp af sprengjutilræðinu var langsótt og flókin. Margt í málatilbúnaðinum reyndist standa á veikum grunni, enda fór það svo að félagi Megrahis var sýknaður.

Eitt það skrítnasta í málinu var tilefnið eða öllu heldur skortur á því. Ef allt hefði farið „að óskum“, hefði vélin hrapað yfir Atlantshafinu og orsakirnar mögulega aldrei uppgötvast. Hvers vegna hefði stjórnin í Trípólí átt að standa í slíku hryðjuverki? Hver hefði hinn pólitíski ávinningur verið?

Skömmu fyrir Lockerbie, höfðu Bandaríkjamenn hins vegar skotið niður farþegaþotu frá Íran yfir Persaflóa – sögðust hafa tekið feil á henni og njósnavél. Fyrstu viðbrögð margra við Lockerbie voru einmitt að rifja upp írönsku vélina.

Og í fyrstu miðaðist rannsókn málsins einmitt við þessa tengingu. Tilgátan var þá sú að Sýrlendingar hefðu tekið að sér hryðjuverkið í einskonar verktöku fyrir Írani – ef ekki stjórnvöld, þá efnaða einstaklinga sem þráðu hefnd. Þar var í það minnsta komin ástæða.

En svo braust fyrra Íraksstríðið út og í aðdraganda þess varð vestrænum stjórnvöldum mikið í mun að friðþægja Sýrlendinga – en þó einkum Írani. Eins og hendi væri veifað var horfið frá öllum kenningum varðandi sýrlenska/íranska vinkilinn en þess í stað einblínt á Líbýu.

Það merkilega var að Líbýumenn virtust láta sér þetta vel líka. Stjórnvöldum þar þótti bara harlagott að fá stimpilinn óvinur Vesturlanda nr. 1. Í nokkur ár tóku Líbýumenn nánast með berum orðum „heiðurinn“ af ódæðinu.

Spurningin er hvort lausn Megrahis núna verði til þess að eitthvað nýtt komi fram í þessu flókna og subbulega máli?