Fólksfækkun?

Því hefur verið slegið upp í fjölmiðlum í dag að Íslendingum fækki nú í fyrsta sinn í 120 ár. Það er að segja: að látnir og brottfluttir séu í fyrsta sinn í allan þennan tíma fleiri en fæddir og aðfluttir. Við eigum öðru að venjast, þökk sé frjósemi íslenskra kvenna. Það er því ekki að undra þótt fólki líki þetta illa.

Þótt fækkunin sé lítil, upplifa margir hana sem svo að partýið sé búið og skemmtistaðurinn að tæmast. Það skringilega er hins vegar að á sama tíma er röð fyrir utan staðinn, sem ekki er hleypt inn.

Ísland er lokað land. Það hefur verið það frá því að Evrópusambandið stækkaði hvað hraustlegast til austurs – og þar með Evrópska efnahagssvæðið. Þá öðlaðist stór hópur fólks rétt til að flytjast hingað til lands og leita sér að atvinnu. Viðbrögð kerfisins voru þau að skella í lás gagnvart öllum öðrum. Þessi stífni tók oft á sig fáránlegar myndir. Þegar Framarar ætluðu að fá endurnýjað starfsleyfi fyrir Úkraínumann sem hafði leikið sem skytta í handboltanum – svaraði kerfið með því að spyrja hvort starfið hefði verið auglýst á Evrópska efnahafssvæðinu?

Afleiðingar þessarar stefnu eru dapurlegar fyrir fjölda einstaklinga og fjölskyldna. Fólk af erlendum uppruna, sem búið hefur hér um áraraðir og öðlast ríkisborgararétt – getur ekki fengið vini og ættingja hingað til lands, þótt því takist að sýna fram á að viðkomandi geti framfleytt sér hér, eigi vísa vinnu og vilji borga hér skatta.

Það er furðulegt að horfa upp á Íslendinga kveinka sér undan því að þjóðinni fækki – á sama tíma og fólki sem sannarlega vill slást í hópinn er neitað um það.

Er hægt að hafa mikla samúð með veitingamanni sem barmar sér undan fáum viðskiptavinum á sama tíma og hann lætur dyraverðina sína halda fólkinu úti?