Svo var það fyrir átta árum…

Fyrir átta árum skrifaði ég þennan pistil á vefritið Múrinn. Spásögn?

Nýjasta slagorðið í íslenskum raforkumálum er uppskipting orkukerfisins í smærri einingar „til að koma á samkeppni á orkumarkaði“. Með því er verið að fara inn á nákvæmlega sömu braut og Thatcher-stjórnin í Bretlandi gerði með samgöngukerfið og fáir treysta sér í dag til að verja. Heilsteypt og skilvirkt kerfi verður tekið og hlutað í sundur til að bitarnir verði viðráðanlegri fyrir soltin markaðsöflin. „Samkeppni á orkumarkaði“ mun ekki gagnast neytendum. Hún mun ekki gagnast landsbyggðarsfólki og þegar til lengri tíma er litið mun hún ekki gagnast íbúum höfuðborgarsvæðisins og atvinnulífinu, ef frá eru talin stóriðjuver sem fengið orku á hagstæðum kjörum í krafti fjármögnunar.

Þegar róttækir vinstrimenn komast til valda á Íslandi, munu þeir meðal annars taka á þessu máli og þá mun koma í ljós hversu miklar skemmdir hægrimenn verða búnir að valda á þessum mikilvægu stofnunum. Til að lagfæra skemmdirnar kemur fyllilega til greina að íslenska ríkið leysi aftur til sín þær eignir sem fjármagnaðar hafa verið af íslenskum skattgreiðendum og orkunotendum. Og það mega ungir Framsóknarmenn alveg kalla þjóðnýtingu ef þeim sýnist.