Dómarinn (b)

Horfði á Frakkaleikinn á Eurosport, til að losna við hlutdræga íslenska þuli sem láta ákafann rugla dómgreindina. Lýsendurnir á Eurosport voru líka góðir og vel undirbúnir. Það fór samt ekki á milli mála að hjarta þeirra sló með Íslandi.

Það litla sem ég sá af lýsingunni á RÚV, voru menn að tuða yfir rússneska dómaranum. Það er ómaklegt.

Lýsendurnir á Eurosport gáfu þeirri rússnesku fína einkunn. Þeirra niðurstaða var á þá leið að hún hefði brugðist rétt við öllum helstu atriðum. Vítin tvö sem íslenska liðið fékk á sig voru bæði réttmæt. Í báðum tilvikum var um að ræða klaufaleg brot íslensku stelpnanna, sem líklega verður að skrifa á stress og taugaveiklun.

Frakkarnir voru bæði fljótari og teknískari en okkar stelpur, en íslenska liðið sterkara og grimmara. Niðurstaða lýsendanna var á þá leið að ef hægt væri að finna að einhverju varðandi dómgæsluna, þá væri það helst hversu mikið sumir íslensku leikmennirnir hefðu fengið að komast upp með.

Við getum í það minnsta ekki kvartað yfir dómaranum og kennt henni um úrslitin – þótt auðvitað hefðum við öll viljað ná sigri eða jafntefli útúr leiknum.