Stefán Group

Í dag voru framkvæmdastjórnmál iðkuð á Mánagötunni. Stórafrek dagsins fólust í því að Steinunn náði í pappírsbleðil, skrifaði á hann nöfn allrar famelíunnar (í þeirri röð hversu lengi hver og einn hefur búið í húsinu) og festi í útidyragluggann. Þar með getur Böðvar vænst þess að fá póst eins og aðrir á heimilinu.

Við sama tilefni tók Steinunn niður gamla miðann, sem hún hafði skrifað sumarið 2005. Þá hafði hún gripið lítið auglýsingaspjald frá SPRON og skrifað á bakhliðina nöfnin okkar. Fyrir vikið sneri bakhliðin/framhliðin alltaf inn í íbúðina.

Auglýsingaspjaldið var í sömu stærð og hvert annað nafnspjald. Það var líka sett upp eins og fínt bissneskort. Merki „fyrirtækisins“ stóð uppi í horninu: StefánGroup. Og vinstramegin var skrifað svörtum og grænum stöfum: Stefán Pálsson framkvæmdastjóri.

Boðskapurinn var skýr: hjá SPRON eru labbakútar eins og þú trítaðir eins og fínir menn, framkvæmdastjórar hjá xxxxGroup og ég veit ekki hvað!

Ekki féll ég fyrir þessum auglýsingapósti, þótt hann hafi fengið að hanga uppi í andyrinu heima hjá mér í fjögur ár – með þeim afleiðingum að ég hef þurft að segja þessa sögu ótal oft þegar fólk hefur spurt mig útí spjaldið.

En úr þessu geymi ég kannski helv. merkimiðann. Hann gæti þá orðið safngripur á góðærissafninu sem ég ætla rétt að vona að einhver góður maður sé að leggja drög að…

Join the Conversation

3 Comments

  1. haha, fyndin tilviljun – í dag fórum við einmitt í Brynju til að panta nafnspjald á hurðina (lítið gler í útidyrahurðinni, þannig að við getum ekki leyst þetta eins og þið). Finnur (sá yngsti) er nú orðinn níu ára og hann var ekki á gamla spjaldinu…

  2. Þarna voru Sparisjóðirnir á ferðinni, sem er samband allra sparisjóðanna nema Spron og Byrs. Þeir voru fyrstir til að gera grín að allri þessari útrás og group rugli. Herferðin gekk út á að hinir bankarnir væru svo bissí við útrásina en Sparisjóðirnir (muna: Fyrir utan Byr og Spron) leggðu áherslu á þjónustu við venjulegt fólk.

  3. Gunnsteinn Þór Ólason var komin á póstkassann tveggja daga gamall, daginn sem hann fékk nafn. Og er strax farinn að fá póst frá æstum aðdáendum 🙂

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *