Sónninn

Ég á við hvimleitt vandamál að stríða. Spurning hvort hinir ljónskörpu lesendur þessarar síðu geti komið til aðstoðar?

Hér á Mánagötunni eru þrjár íbúðir. Ein í kjallara, við á miðhæðinni og efri hæðin hjá Siggu og Benedikt. Upp á síðkastið hefur farið að bera á leiðinlegum són – einsleitu og háu hljóði sem varir frá 4-5 sekúndum og upp í svona hálfa mínútu í senn. Hljóðið berst úr þeim hluta íbúðarinnar þar sem baðherbergið er (baðherbergin í íbúðunum þremur eru hvert ofan á öðru). Það er erfitt að átta sig á því hvaðan það berst nákvæmlega. Það kemur ekki úr blöndunartækjum, heldur virðist frekar vera innan úr veggjunum eða úr loftinu. Í kjallaranum heyrist ekki neitt. Við heyrum ágætlega í þessu en á efstu hæðinni er hávaðinn mjög mikill og Sigga farin að slökkva á heyrnartækinu sínu vegna þessa.

Svo virðist sem hljóðið hafi byrjað að láta á sér kræla í vor en verður stöðugt tíðara og hærra. Það er mest á kvöldin, en lætur minna bera á sér yfir miðjan daginn. Á kvöldin er nánast hægt að kalla það fram að vild með því að skrúfa frá krönum og/eða sturta niður. Að deginum lætur það ekki eins vel að stjórn.

Okkur datt í hug að þetta gæti verið afleiðing af millirennsli milli heits og kalds vatns – en píparinn sem kom í heimsókn í dag (þegar ekkert heyrðist) sagði að um slíkt gæti varla verið að ræða, þar sem blöndunartækin væru ekki sjóðheit eins og þegar slíkt gerðist.

Hver djöfullinn getur eiginlega verið á ferðinn?

Join the Conversation

13 Comments

 1. Hækkar tíðnin aðeins þegar tónninn er að hætta? Er tónninn fyrir ofan eða neðan 1000 Hz?
  Það þekkist að smá víbringur þegar vatn spýtist um krana, t.d. í hitaveitugrind geti eigintíðni (resónans) einhverra röra magnað einhverja tíðni upp í sterkan tón.

 2. Sæll
  Ég man eftir svipuðu máli í mínum húsakynnum (í svefnherbergi) fyrir nokkrum árum. Í einfeldni minni tengdi ég það við raf- eða símalagnir þar sem útilokað var að vatnslagnir væru nálægar. Sónninn hvarf ef maður barði í vegg á þeim slóðum þar sem hann var mest áberandi. Hann hefur ekki látið á sér kræla vel og lengi núna – en símatengill þarna í grennd virkar heldur ekki… Ég veit reyndar ekki hvort hann hefur nokkurn tíma gert það.

  Að öðru leyti er ég andvígur barsmíðum, svo það sé á hreinu.

 3. það er mjög algengt að það syngi svona í vatnspípum og ég veit ekki til þess þær séu alltaf sjóðheitar þegar það gerist. Þetta er viðvarandi vandamál heima hjá foreldrum mínum og þá dugar yfirleitt að fara og hækka eða lækka aðeins á einum ofninum til að hljóðið hætti.

 4. Fínar ábendingar.

  En það sem rýrir trú mína á að heita vatninu sé um að kenna er sú staðreynd að þegar þetta er farið að ágerast á kvöldin – þá er hægt að kalla þetta fram eins og eftir pöntun með því að sturta niður.

  Nágranninn giskaði á skýringin gæti legið í yfirfallinu. Einhver sem leggur trúnað á það?

 5. Kannski biluð lofttúða sem jafnar þrýsting og gætir þess að vatnslásar tæmist ekki þegar sturtað er niður. Næsta stig vandans gæti orðið vond lykt þegar austanáttin fer að blása.

 6. Ég myndi giska á að þetta tengdist klósettinu. Stundum getur „stoppið“ í vatnskassanum slitnað þannig að það lokar ekki alveg 100% fyrir innstreymið. Við það getur víst myndast leiðindahljóð í lögnum. Það getur hins vegar verið leiðinlegt að finna þetta.

 7. Það mætti reyna að skrúfa fyrir vatnið í klósettkassann og tæma hann svo til að komast að því hvort hljóðið kemur þaðan. Hjá mér mátti rekja sóninn til blöndunatækja þar sem virðist renna á milli heita og kalda vatnsins, en blöndunartækin hitna þó ekki. Það hljóð hættir þegar ég stilli blöndunartækin á „kaldara en andskotinn“ stillinguna. (sem er reyndar bara millimeter frá „heitara en sólin“)

 8. Þetta gerist stöku sinnum hér heima og á upptök sín í kyndikompunni, eða þ.e.a.s. í lögnum þar. Þetta gerist hjá okkur þegar skrúfað er frá vatni á efri hæðinni/hæðunum. Ég skýt á að um sé að ræða víbríng í lögnunum sem getur vel átt upptök sín vegna mikils þrýstings (gerist meðal annars þegar farið er í sturtu uppi). Legg til að þið heyrið í öðrum pípara/pípurum, finnst afar líklegt að þeir þekki skýringu á þessu. Hvort það er svo vandræðalítið hægt að laga þetta er annað mál.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *