Samningurinn

Egill Helgason rekur (og það ekki í fyrsta sinn) spádóm sinn um niðurstöðu Icesave-málsins. Hún er á þá leið að Íslendingar muni aldrei koma til með að borga nema hluta þeirra upphæða sem nú eru í umræðunni, þar sem ljóst megi vera að þjóðirnar muni þurfa að setjast niður að samningaborðinu á nýjan leik eftir sjö ár.

Egill er reynar ekki einn um að aðhyllast þessa kenningu. Samkvæmt henni komust íslenskir ráðamenn fljótlega að þeirri niðurstöðu að hvað sem öðru liði, hefði málstaður Íslands engan pólitískan stuðning og afstaða fólks í Bretlandi og Hollandi gæfi viðsemjendunum ekkert færi á að sýna linkind í samningum þótt þeir fegnir vildu (og sem þeir vildu raunar ekki). Þegar þessi staða lá fyrir, hafi Íslendingar snúið sér að því að leggja höfuðáherslu á að fá sem mestan frest áður en byrjað yrði að borga.

Þannig veðji Íslendingar á að eftir sjö ár verði búið að fenna yfir málið. Þeir stjórnmála- og embættismenn sem að því komu flestir eða allir hættir og jafnvel nýir flokkar komnir til valda. Íslenskir peningaglæframenn verði flestum gleymdir (og sumir vonandi búnir að sitja í fangels), en Ísland aftur orðið krúttlega landið þar sem allir trúa á álfa og spila í hljómsveit. Þá fyrst verði mögulegt að endurskrifa söguna og fá grannþjóðirnar til að fallast á að um nauðarsamninga hafi verið að ræða og best sé að reyna að gera gott úr málinu.

Vandinn við þessa stefnu (ef þetta var í raun stefnan) er sá að ekki var hægt að gaspra um hana í þingsölum. Fjármálaráðherra Íslands átti jú ekki svo auðvelt með að segja í sjónvarpinu: „Blessuð veriði – við getum aldrei borgað þetta helvíti, enda ætlum við að fá þetta að miklu leyti afskrifað eftir sjö ár…“

Nú kann vel að vera að þessi spádómur Egils Helgasonar sé litaður af óskhyggju og vonlaust verði að fá neinu hnikað til eftir sjö ár…

…en sé hann réttur, þá vakna spurningar um hvort fyrirvararnir sem allir kepptust við að lofsyngja fyrir fáeinum dögum hafi e.t.v. verið misráðnir? Það er nefnilega rétt að við gerð þessara fyrirvara voru Íslendingar að semja við sjálfa sig og því gætu Hollendingar og Bretar alltaf bent á að í þeim fælust viðmið sem Íslendingar hafi sjálfir talið viðunandi sjö árum fyrr. Það gæti því orðið þrautin þyngri að ná samningum um nokkuð það sem fæli í sér lægri greiðslur en fyrirvararnir gera ráð fyrir.

Það yrði í það minnsta kaldhæðnisleg niðurstaða ef fyrirvarar Alþingis yrðu að lokum notaðar af breskum og hollenskum samningamönnum og leiddu til þess að við borguðum meira en annars hefði getað orðið.