G-orðið kom upp hér á Mánagötunni í dag. Ólína (4 ára og 4 mánaða) spurði sem sagt spurningarinnar: „Hver er Guð?“
(Það að þessi spurning hafi ekki komið upp fyrr, segir líklega sitt um að leikskólapresturinn sem mætti á Sólhlíð í fyrra – hafi ekki verið að ná í gegn hjá krökkunum…)
Barnið hafði sem sagt farið að spá í textann á einu uppáhaldslaginu – „Furðuverki“ í flutningi Nylon. Þar segir jú: „Ég er furðuverk. Algjört furðuverk – sem að Guð bjó til. Ég er furðuverk.“
Við urðum dálítið kindarleg, en útskýrðum síðan að margt fólk tryði því að Guð væri til, hann hefði skapað allt fólkið og byggi uppí skýjunum og að allir sem væru dánir færu þangað upp og byggju hjá honum. Pabbi og mamma hefðu nú reyndar ekki mikla trú á þessu. Við héldum að þegar fólk væri dáið, þá væri það bara dáið og að það væri enginn guð. Hins vegar gætum við svo sem alls ekki verið viss og margt gott fólk – þar á meðal sumar fóstrurnar á Sólhlíð – væru á því að Guð væri til.
Eftir að hafa gefið þeirri stuttu smátíma til að melta upplýsingarnar, spurðum við varfærnislega hvað hún héldi sjálf – hvort Guð hefði skapað hana? „Neei, það finnst mér nú ekki mjög líklegt“ – var svarið.
En það lá augljóslega þungt á henni að stelpurnar í Nylon (sem hún kallaði lengi vel frænkur sínar) væru að syngja um eitthvað sem væri kannski bara bölvuð vitleysa. „En mér finnst það mjög fallegt þegar hún sem er í bláa bolnum syngur: Ég er furðuverk – lítið samt ég skil… Þetta er uppáhaldslagið mitt“, sagði hún. Og við urðum sammála um það að Furðuverk væri frábært lag og að það væri algjör óþarfi að lesa alltof mikið í svona texta. Aðalatriðið væri að tónlistin væri skemmtileg.
Þá er G-umræðan búin. Það er auðveldara að vera foreldri en ég hélt…