Maradona (b)

Maradona er daufur í dálkinn í hálfleik. Argentínumennirnir hafa hlaupið mikið, en alveg gleymt því að standa vörnina gegn Brasilíumönnum. Það er raunveruleg hætta á að argentíska liðinu mistakist að komast á HM, sem yrði stórskandall.

Þar sem Maradona er mesti knattspyrnumaður sögunnar, þá er óskaplega leiðinlegt að fylgjast með þjálfaraferil hans mistakast svona heiftarlega. Vonandi rétta þeir úr kútnum.

Líkurnar á nýjum keppnislöndum á HM fara minnkandi. Bahrain gerði bara jafntefli á heimavelli gegn Sádi Arabíu í Asíukeppninni. Venesúela á undir högg að sækja í Suður-Ameríku og Afríka sendir væntanlega gamalkunnug nöfn. Bosnía Hersegóvína kemst væntanlega í umspil og Slóvakía yrði strangt til tekið nýtt þjóðríki á HM. Þá eru Lettar enn í séns. Tvö ný lönd (og í raun bara eitt og hálft) eru rýr uppskera á HM.

Af uppáhaldsliðunum í Evrópu er gaman að sjá Norður-Íra standa sig vel. Grikkir eiga viðráðanlega leiki eftir og ættu að geta náð toppsætinu. Skotar þurfa að vinna Hollendinga á miðvikudaginn (sem ég hef raunar fulla trú á). Það yrði líka kúnstugt að sjá Frakkland og Þýskaland þurfa að fara í umspil eins og vel getur gerst.