Reisum minnisvarða, en…

Fyrr í dag skráði ég mig í fasbókargrúppuna sem berst fyrir því að Helgi Hóseasson fái sinn minnisvarða í borginni – helst við Laugarnesveginn.

Ég er reyndar ekki viss um að rétt sé að reisa líkneskju af Helga. Betra væri að fá flottan skúlptúr, t.d. með e-u af skiltunum hans í varanlegu efni. Jafnframt ætla ég að vona að skiltasafni Helga hafi verið komið fyrir á góðum stað. Það á heima á safni.

En við eigum ekki að kalla eftir því að ríkið eða borgin kosti slíkt minnismerki. Það væri eitthvað rangt ef ríkisvaldið sem Helgi hamaðist gegn hálfa ævina myndi enda á að kosta varðann um baráttu hans. Við eigum að fá úthlutað staðnum fyrir listaverkið og svo eiga góðir menn að skjóta saman í sjóð til þess að ráða snjallan listamann til að hanna og gera verk. Ætli kostnaðurinn yrði meiri en svona 2-3 milljónir og slíkri fjárhæð yrði hægðarleikur að safna til þessa málefnis.