Myndin skýrist

Um verslunarmannahelgina varð ég fyrir því að hraðbanki gleypti debetkortið mitt. Það var sagt útrunnið, þótt síðar hefði komið í ljós að það átti ekki að renna út fyrir en nokkrum mánuðum síðar. Í einfeldni minni kenndi ég tölvumistökum um og spáði svo ekki meira í þessu.

Þökk sé þessari grein, sé ég atburðarásina hins vegar í alveg nýju ljósi.

Samkvæmt þessu heldur Sigurjón M. Egilsson því fram að DV-blaðamaður hafi bakað sér óvild bankastjóra Landsbankans með skrifum um Kumbaravog og í kjölfarið mátt sæta fjárhagslegum ofsóknum. Þær birtust í því að klippt var á debetkortið hans í Bónus á háannatíma.

Þetta er augljóslega stórundarlegt mál og því eðlilegt að nafnleysingjarnir í athugasemdakerfi Eyjunnar kalli eftir úttekt Umboðsmanns Alþingis og Fjármálaeftirlitsins. Auðvitað er fráleitt ímynda sér að blaðamaður á svimandi DV-taxta kunni að hafa eytt kaupinu sínu á Ölstofunni og því farið yfir um á kortinu í Bónus.

Ef ég væri bankastjóri Landsbankans og þyrfti að jafna reikninga við menn útí bæ, þá myndi ég líka gera þetta: láta strákana í tölvudeildinni tilkynna stuld á debetkorti um það leyti sem líklegast er að fórnarlambið sé að kaupa inn fyrir helgina.

Og ef ég væri í sérstaklega illu skapi myndi ég jafnvel hringja í Domino´s og panta pizzu í hans nafni. Vald spillir og gerræðisvald gerspillir.

Auðvitað er þetta það sem gerðist í sumar. Líklega hefur mér tekist að troða valdamönnum í samfélaginu um tær með hárbeittum skrifum mínum og skarpri þjóðfélagsrýni á þessari bloggsíðu. Valdastéttirnar – peningaöflin og varðhundar þeirra – hafa sest á rökstóla og spurt sig: hvernig getum við þaggað niður í þessum Stefáni Pálssyni?

Og í kjölfarið hefur einhver bankastjórinn kippt í spotta til að tryggja að ég stæði uppi peningalaus á Neskaupstað um miðja verslunarmannahelgi. Þetta er eitthvað svo augljóst núna!