Rúðuborg

Glerálman, hið nýja anddyri Minjasafns OR (og síðar Fornbílaklúbbsins) hefur hlotið nafn. Hún nefnist Rúðuborg og ég er þá væntanlega orðinn jarlinn af Rúðuborg eða e-ð álíka.

Í kvöld var fyrsta stóra samkoman haldin í Rúðuborg. Sönghópurinn Hymnodia frá Akureyri hélt frábæra tónleika að viðstöddum 80 gestum eða þar um bil.

Hljómburðurinn reyndist góður. Vandamálin sem upp komu tengdust helst loftræstimálum – eða öllu heldur, við gátum tryggt gott loft með því að láta útidyrnar standa opnar. Slíkt er ekki hægt í öllum veðrum og þá kynnu að koma upp vandamál.

Svo á maður náttúrlega eftir að læra betur á húsnæðið, hvernig best sé að stilla upp o.þ.h.

En nú er ég sem sagt orðinn stjórnandi tónlistarsals. Liggur ekki beint við að ég sæki um tónlistarhúsið þegar það verður tilbúið?