Önnur sjónarmið

Landsfundur Borgarahreyfingarinnar stendur fyrir dyrum. Einhvern veginn eru allir svo sannfærðir um að fundurinn muni leysast upp í hjaðningavíg og deilur að ég er farinn að hallast að því að hið gagnstæða gerist. Að það verði bara nokkuð góður samhljómur.

Í fréttum er talað eins og hreyfingin skiptist upp í tvo arma. Í öðrum eru m.a. þeir þingmenn sem enn eru eftir í upphaflega þingflokknum… afsakið, þinghópnum. Hinn hópurinn virðist vilja fá að hafa meira yfir þingmönnunum að segja. Afar erfitt er að sjá neinn málefnaágreining á milli fylkinga.

Það er sérkennilegt með Borgarahreyfinguna, að ég held að þegar kemur að grundvallarhugsjónum í lífinu og varðandi pólitík, eigi ég helling sameiginlegt með fjölda fólks innan hreyfingarinnar. Þarna er t.a.m. að finna ýmsa sem hafa verið mjög duglegir í friðarbaráttunni í gegnum tíðina.

Þegar kemur hins vegar að hugmyndum um vinnubrögð í stjórnmálum, held ég að varla sé til það fólk á landinu sem ég er meira ósammála.

Hér má finna tengil á tillögur þingmannaarmsins um hvernig haga skuli skipulagi Borgarahreyfingarinnar. Þær fela í sér ósk um nær algjört skipulagsleysi. Hinn armurinn er á svipuðu róli í hugmyndum sínum og mun væntanlega telja það helsta gallann á þessum tillögum að þær feli í sér of mikið skipulag. – Ætli það megi ekki draga hugmyndir Borgarahreyfingarfólks um stjórnmál saman í þann kjarna að þau telji skipulag (strúktúr) og lýðræði vera andstæð fyrirbæri.

Sjálfum finnst mér skipulag vera forsenda lýðræðis. Því minna skipulag, því meiri líkur á að allar ákvarðanir verði teknar eftir geðþótta fáeinna manna.

Nú kann vel að vera skilningur minn sé rangur. En mikið ætla ég að vona að ég þurfi aldrei að koma nálægt stjórnmálahreyfingu sem væri byggð upp eins og skipulagstillögur Borgarahreyfingarinnar gera ráð fyrir.