Þjóðin hafnar Bubba, Margréti Láru & handboltalandsliðinu

Skoðanakönnunin sem birt var í gær um „sameiningartákn þjóðarinnar“ var kjánaleg – enn kjánalegri var þó túlkun fjölmiðla á henni. Nú étur t.d. hver upp eftir öðrum að 1% þjóðarinnar líti á forsetann sem sameiningartákn – og 99% geri það þar af leiðandi ekki.

Nú er það svo sem alveg ljóst að Ólafur Ragnar er ekki vinsælasta stúlkan í hópnum um þessar mundir, en svona rökfimiæfingar eru galnar.

Í könnuninni var fólk beðið um að nefna þann einstakling sem væri eða gæti orðið sameiningartákn og jú, 1% nefndi forsetann og 2% Davíð Oddsson ef ég man rétt. Fólki var sem sagt ekki boðið að taka afstöðu til einstakra kandídata, heldur átti að nefna þann sem því dytti í hug.

Ekki komst Bubbi á blað. Enginn nefndi Eið Smára, handboltastrákana, fótboltastelpurnar o.s.frv. Logi Bergmann fékk ekki einu sinni atkvæði!!! – Með öðrum orðum: þjóðin hafnar því að þetta fólk geti talist sameiningartákn! Eða hvað?

Mestu kjánarnir í könnuninni eru þó þessi 7-8% sem nefna formenn sinna eigin stjórnmálaflokka. Það segir okkur að a.m.k. tólfti hver Íslendingur skilur ekki hugtakið sameiningartákn – eða er eðjót. (Annar kosturinn þarf ekki endilega að útiloka hinn.)

Hins vegar mætti einhver útskýra fyrir mér hvað eigi að vera unnið með því að heilu þjóðirnar velji sér nafngreinda einstaklinga sem sameiningartákn. Mér finnst hugmyndin reyndar vera frekar krípí.