Gulli hárgreiðslumaður, sem starfaði í Kirkjustrætinu, er látinn. Fór nokkrum sinnum til hans þegar ég var í Menntó, enda stofan steinsnar frá MR.
Um tíma vorum við Gulli líka fastagestir á sama kaffihúsinu. Þegar ég var á öðru ári í MR sótti ég nefnilega talsvert Kaffi Ingólfsbrunn – hálfgerða búllu í kjallara Miðbæjarmarkaðarins. Þar var aldrei neinn og kaffið vont og staðið – en þeir hikuðu ekki við að selja 17 ára unglingum bjór og það kunni maður að meta.
Stundum sátum við félagarnir þarna laust fyrir hádegið og þá vildi það henda að vertinn snaraði sér framfyrir barborðið og setti spjald á eitt borðið með áletruninni „frátekið“. Þetta fannst manni alltaf jafn kyndugt á mannlausum veitingastaðnum. En skömmu síðar kom Gulli og fékk sér hádegismat. Hann klikkaði aldrei á því að láta taka frá borð.