Sónninn 2

Í mörg ár hef ég skemmt mér við að segja söguna af því þegar Palli Hilmars vinur minn lenti í því að sitja í myrkri heila helgi og elda á prímus, þess fullviss að Rafmagnsveitan væri búin að taka af strauminn vegna vangoldinna reikninga, til þess eins að fatta á mánudegi að farið hefði öryggi í töflunni.

Núna er ég orðinn Páll.

Um mánaðarmótin ágúst/september bloggaði ég um sóninn. Það var ýlfrandi hávaði sem truflaði okkur heimilisfólkið um margra vikna skeið, en ætlaði að æra grannann á eftri hæðinni. Margar góðar tilgátur komu fram um hvað gæti verið að ræða.

Fram að þessu hef ég verið að reyna að ná í skottið á pípara, en gengið illa. Loksins var ég búinn að fastnegla tíma með honum í kvöld… en áður dró til tíðinda.

Þar sem nú er farið að dimma allhressilega, sáum við Steinunn að ekki gengi annað en að skrúfa í nýja peru við innganginn í húsið. Í ljós kom að ekki var nóg að skipta um peru – eitthvað hafði farið í töflunni. Svo það var farið niður í kjallara í rafmagnstöfluna og slegið inn rofa sem var úti og líklega verið lengi.

Við rofann var skrifað „hitatengill“.

Ljós kviknaði á stigapallinum. Og það sem merkilegra er – sónninn hvarf. Núna líður mér eins of fávita að hafa setið og ærst af suði sem auðveldlega mátti koma í veg fyrir með einu handtaki.

En eftir stendur ráðgátan. Nú vísaði „hitatengill“ í öryggi fyrir 1.hæðina í sameign, þar sem ekkert termóstat er að finna. Það eru Danfoss-ofnar í húsinu og ég veit ekki um nein termóstöt, amk ekki í kjallaranum og hjá okkur. Og hvaða lógík er í því að það fari að syngja í kerfinu um leið og straumurinn er rofinn, en þagni þegar hann kemst á?

Óska eftir tilgátum.