Góðar fréttir & vondar

Ég færi ykkur góðar fréttir og vondar fréttir.

Góðu fréttirnar eru að Davíð Oddsson var ráðinn ritstjóri Morgunblaðsins. Vondu fréttirnar eru að þetta gerðist fimmtán árum of seint.

Í tuttugu ár höfum við Íslendingar mátt búa við fjölmiðlamarkað þar sem nær öll blöð sem e-ð hefur kveðið að hafa verið í eigu hægrimanna og haldið sjónarmiðum þeirra á lofti. Stóran hluta þessa tíma hefur Morgunblaðið haft drottnunarstöðu og verið ritstýrt af mönnum sem staðið hafa fyrir sömu pólitík og forysta Sjálfstæðisflokksins. Þegar Davíð Oddsson studdi innrásina í Írak, stóðu Styrmir Gunnarsson og Ólafur Stephensen klappandi á hliðarlínunni.

Á sama tíma reyndi Morgunblaðið að leika það leikrit að væri frjálst og óháð – að tími hinna pólitísku blaða væri liðinn o.s.frv. Fjölmargt fólk á vinstravængnum – uppgefið á blaðaútgáfu liðinna áratuga – ákvað að spila með.

Síðasta einn og hálfa áratuginn má segja að hægrimenn hafi fengið að eiga hið pólitíska svið einir hér á landi. Skýringarnar á því eru einkum tvær: annars vegar ákváðu vinstrimenn að eyða tíu árum í að þrefa um innri skipulagsmál sín – hvort þeir ættu að vera í einum, tveimur eða þremur flokkum. Hins vegar leyfðu þeir hægrimönnum að ráða dagblaðamarkaðnum í þeirri sjálfsblekkingu að við værum í raun öll á sama báti.

Þess vegna er það svo grátlegt að Davíð Oddsson skuli nú fyrst vera að taka við Morgunblaðinu. Ef hann hefði verið ráðinn fyrir fimmtán árum væri þjóðfélagið líklega í mun betri stöðu í dag.

Join the Conversation

6 Comments

 1. Þessum pistli er ég afar ósammála. Ég sé nákvæmlega ekkert jákvætt við þessa ráðningu.
  Í fyrsta lagi hefur blaðið verið að þróast undanfarin ár í átt frá því að vera flokksmálgagn yfir í að hafa fjölbreytilegri afstöðu, þó það ætti vissulega langt í land með að verða einhver Þjóðvilji.
  Í öðru lagi óttast ég að við séum hér að sjá upphaf stórfelldrar og markvissrar sögufölsunar og ég hefði haldið að það væri sagnfræðingi verulegt áhyggjuefni.
  Í þriðja lagi er svo þröngum sérhagsmunahópi afhent öflugt gjallarhorn með milljarðastuðningi hins opinbera og almennings, á tímum þegar í hönd fer gríðarlega mikilvæg umræða í samfélaginu.

 2. Það er talsverður misskilningur á störfum sagnfræðinga að halda að við höfum áhyggjur af hlutdrægum frásögnum. Við væntum þess hreinlega að heimildirnar endurspegli afstöðu þeirra sem þær rita – að öðrum kosti mætti jafnvel segja að sagnfræðingar væru óþarfir.

  Nú munu góðir menn þurfa að leggjast á árarnar til að leiðrétta missagnir nýrra Moggaritstjóra gagnvart samtíðinni – en ekki hafa áhyggjur af sagnfræðingum framtíðarinnar. Þeir sjá um sig sjálfir.

 3. Æ, af hverju geta ekki allir fjölmiðlar verið skipaðir miðjumoðandi, ESB-sinnuðum teknókrötum? Það er nefnilega svo vel fallið til „sátta í samfélaginu“.

 4. Það er mjög langt síðan einhver gat orðið ritstjóri Morgunblaðsins án þess að hafa tekið þátt í stjórnmálum á vegum Sjálfstæðisflokksins.

  Fyrir seinustu kosningar hegðaði Morgunblaðið sér eins og áróðurspési Sjálfstæðisflokksins.

  Það eina sem mun breytast með DO er að sumir andstæðingar hans munu vakna af þyrnirósarsvefninum.

  Svo er þetta auðvitað mikil öfugþróun fyrir þá menn sem eru hægrisinnaðir, Sjálfstæðismenn og frjálshyggjumenn en þó andstæðingar Davíðs Oddssonar. Það er eini hópurinn sem „tapar“ núna.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *