Endurkoma (b)

Klukkan þrjú í dag ætlaði ég að setjast niður og skrifa bloggfærsluna um að Mick Harford yrði að hætta sem knattspyrnustjóri Luton. Við vorum þá 2:0 undir gegn Cambridge og manni færri í hálfleik.

Eftir hlé spýttu strákarnir hins vegar í lófana. Skoruðu fjögur mörk gegn einu og unnu 3:4. Gæti þetta reynst leikurinn sem snýr genginu við hjá okkur?

Við höfum farið illa af stað í haust. Erum í sjötta sæti (reyndar bara tveimur stigum frá næstefsta liði) og tíu stigum á eftir Oxford sem er að leika best allra. Það verður erfitt að brúa þetta bil – en þó ekki útilokað. Fyrsta skrefið er þó að hrista af sér liðin í öðru til ellefta sætinu, sem eru öll í hnapp.

Sigur gegn Stevenage á þriðjudagskvöld er nánast lífsnauðsyn.