Enn um Þjóðstjórnina

Áður hefur verið fjallað á þessu bloggi um hvimleiðar sögulegar rangfærslur um Þjóðstjórnina svokölluðu frá árinu 1939. Margir hafa orðið til að stinga upp á að mynduð verði þjóðstjórn til að bregðast við kreppunni (og hér verður engin afstaða tekin til þess hvort það sé góð eða vond hugmynd). Hvimleiðara er hins vegar þegar menn draga inn í þá umræðu ríkisstjórnina frá 1939.

Páll Ásgeir Ásgeirsson, félagi minn í F.F.D.G.B., bloggar t.a.m. á þessum nótum í dag og fékk að því tilefni frétt á DV-vefnum. Þar kallar segir Páll Ásgeir að 1939-stjórnin sé eina þjóðstjórn Íslandssögunnar og hafi verið mynduð vegna yfirvofandi stríðsógnar. Það er raunar sama staðhæfing og lesa má á íslensku Wikipediunni.

Hið rétta er að 1939-stjórnin var ekki þjóðstjórn, miðað við hefðbundnar skilgreiningar þess hugtaks. Og það er hrein eftiráskýring að heimsstyrjaldarógnin hafi ráðið mestu um myndun hennar.

Ríkisstjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks kallaði sig að sönnu Þjóðstjórn – en það gerir hana ekki að þjóðstjórn, ekki frekar en að eflaust má deila um hvers mikil viðreisn eða nýsköpun fólst í samnefndum ríkisstjórnum, hvort Frjálslyndi flokkurinn sé frjálslyndur og hvort Hreyfingin sé stöðnuð.

Þjóðstjórn (með litlu þ-i) vísar í það þegar starfandi stjórnmálaflokkar víkja hefðbundnum átakamálum til hliðar á krísutímum, yfirleitt vegna utanaðkomandi ógnar – s.s. stríðsreksturs eða meiriháttar áfalls. Slík stjórn þarf að innihalda flesta eða alla flokka og spanna allt stjórnmálalega litrófið.

Stjórnarmyndunin 1939 uppfyllir ekki þessi skilyrði. Bakgrunnur hennar var sá að í kosningunum 1937 hélt Stjórn hinna vinnandi stétta (sem aftur má deila um hvort var réttnefni) velli. Framsóknarmenn styrktu sig, en samstarfsflokkurinn – Alþýðuflokkurinn – kom verulega laskaður út úr kosningunum og meirihlutinn stóð tæpt. Kommúnistar kölluðu á þessum árum eftir samfylkingu vinstri manna, sem varð til þess að Alþýðuflokkurinn klofnaði 1938 og Sósíalistaflokkurinn varð til.

Við stofnun Sósíalistaflokksins voru dagar ríkisstjórnarinnar í raun taldir. Þá þegar byrjuðu Framsóknarmenn að leita leiða til að styrkja stjórnina – og þar var það svo sannarlega ekki heimsstyrjaldarótti sem réð för. Það tókst á árinu 1939 þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom að myndun nýrrar stjórnar.

Þjóðstjórnin svokallaða var því alls ekki til kominn vegna óvenjulegra og þrúgandi ytri ógna eða til marks um að stjórnmálamenn þess tíma væru að víkja til hliðar gömlum væringum við nýjar aðstæður. Þvert á móti var hún rökrétt afleiðing af þeirri pólitísku þróun sem átt hafði sér stað misserin á undan. Með myndun stjórnarinnar vakti fyrir Alþýðuflokksmönnum (og fleirum) að einangra sósíalista. Og ástæða þess að Framsókn og íhaldið mynduðu ekki bara tveggja flokka stjórn var djúpstætt persónulegt hatur leiðtoga þeirra – ekki hvað síst í kjölfar þingrofsmálsins 1934.

Þjóðstjórnin 1939 var því ekki þjóðstjórn frekar en að hægt sé að nota það heiti um Nýsköpunarstjórnina. Reyndar er Nýsköpunarstjórnin nær því að falla undir þjóðstjórnarskilgreininguna, því hún spannaði stærri hluta pólitíska litrófsins. Styrkur Framsóknarmanna var þó slíkur að óverjandi er að tala um Nýsköpunarstjórnina sem þjóðstjórn.

Ég segi því enn og aftur: heimtið þjóðstjórn allra flokka ef þið viljið og teljið það verða þjóðinni til heilla – en í Óðins bænum, ekki blanda 1939-stjórninni inní þá umræðu.