Gestaþrautin

Fréttablaðið stingur upp á skemmtilegri gestaþraut í dálkinum Frá degi til dags í dag. Þar er vakin athygli á nýjum og frábærum vef: vefsafn.is, sem varðveitir vefskrif á íslensku. Stígur blaðamaður Fréttablaðsins bendir á að þar geti áhugamenn um góðærisbókmenntir tekið gleði sína á ný, því hægt sé að nálgast hina týndu heimasíðu Björgvins G. Sigurðssonar á Vefsafninu. Sú síða var sem kunnugt er tekin niður vegna lagfæringa í miðju efnahagshruninu.

En nú er sem sagt hægt að skemmta sér við að blaða í gömlum færslum fv. viðskiptaráðherra. Þessi er t.d. dálítið skemmtileg:

17.1.2008
Sterk staða íslenskra banka
Undanfarið hefur gefið á bátinn í fjármálaheiminum í kjölfar lausafjárkreppu erlendis og undirmálslána í Bandaríkjunum. Í því umróti og lækkunar á mörkuðum hafa sjónir beinst að stöðu íslensku bankanna sem hafa á liðnum árum fjárfest af kappi erlendis og hefur umfang þeirra margfaldast á nokkrum árum. Staða þeirra er hinsvegar traust. Þeir standa vel og er lausafjárstaða þeirra prýðileg og fjármögnun þeirra allra lokið til lengri tíma. Ég hef ásamt mínu fólki í viðskiptaráðuneytinu fundað með fjölda manns á liðnum dögum um stöðu og horfur á fjármálamarkaði og stöðu fjármálafyrirtækjanna okkar. M.a. með stjórn Félags fjármálafyrirtækja og formanni stjórnar Fjármálaeftirlitsins. En Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gegna lykilhlutverki við það að fylgjast með og kortleggja stöðuna. Niðurstaða þeirrar yfirferðar er sú að íslensku bankarnir standa vel. Þá bendir margt til þess að umróti loknu náist ágætt jafnvægi í íslensku efnhagslífi þar sem verðbólga er nálægt viðmiðunarmörkum Seðlanbanka, gengi krónunnar gangi hægt og jafnt niður og að vaxtalækkunarferli hefjist innan skamms. Því eru horfur um margt góðar og miklu skiptir að bæði athafnamenn og stjórnmálamenn haldi ró sinni og tali ekki aukin eða óþarfa ótta í stöðuna sem vissulega er viðkvæm enn um sinn.

Join the Conversation

2 Comments

  1. So?
    Björgvin fundar „með fjölda manns … um stöðu og horfur á fjármálamarkaði og stöðu fjármálafyrirtækjanna“ og fær þær fregnir að allt sé í góðum gír. Það hefur síðan komið í ljós að þar var mörgu logið og staða bankanna fegruð með allskonar fiffum. Það vitum við NÚNA.

    „Fjármálaeftirlitið og Seðlabankinn gegna lykilhlutverki við það að fylgjast með og kortleggja stöðuna“. Gerðu þessir aðilar það í raun og veru?

    Björgvin greyið geriri ekki annað en að færa fram fréttir sem hann hefur eftir þeim sérfræðingum sem undir hann heyrðu og áttu að manna vaktpóstana. Þeir reyndust hins vegar svikulir og ótrúverðugir.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *