Þung spor (b)

Ég ætla ekki að blogga um bikarúrslitaleikinn í gær. Er ennþá of aumur til þess.

Hitt fótboltasvekkelsi vikunnar tengist Luton Town. Liðið hefur farið illa af stað og á miðvikudaginn komst stjórnin að þeirri niðurstöðu að knattspyrnustjórinn yrði að fara. Það var hægara sagt en gert, því karlinn í brúnni er enginn annar en Mick Harford.

Harford hefur goðumlíka stöðu í huga Luton-manna. Að reka hann er álíka erfitt og fyrir kirkjuna að reka páfann eða fyrir Argentínumenn að segja Maradona upp störfum.

En staðan er grafalvarleg. Við verðum eiginlega að komast upp úr utandeildinni strax í fyrstu tilraun. Og það er bara eitt lið sem kemst beint upp og annað eftir umspil.

Oxford virðist illviðráðanlegt og er með ellefu stiga forskot á okkur. Kettering, Stevenage og Mansfield eru svo í næstu sætum þar á eftir. Luton situr í fimmta sæti, sem er langt undir væntingum. Gömlu aðstoðarmenn Harfords sjá um stjórn liðsins um þessar mundir, en verið er að leita að nýjum stjóra. Líklega hafa menn vit á því núna að ráða ekki gamla hetju frá gullaldarárunum.