Vegur til verðtryggingar

Rakst á skemmtilega auglýsingu í gömlu Alþýðublaði á hinum frábæra tímaritavef. Þar eru auglýst happdrættisskuldabréf Seðlabankans, sem gefin voru út til að fjármagna vegaframkvæmdir. Auglýsingin segir sitt um hvernig málum var háttað á þessum árum, ekki hvað síst varðandi verðbólguna.

Ég fékk happdrættisskuldabréf í vöggu- eða skírnargjöf. Mörgum árum síðar, þegar það var laust til úttektar reyndust peningarnir nú ekki miklir – EN happdrættisbréfin höfðu þann aukafídus að það var reglulega dregið úr þeim eins og í hverju öðru flokkahappdrætti og peningar voru í verðlaun.

Og árið 1982 vann ég! Svo sem ekki háa upphæð, en þó næga til þess að fjölskyldan gat keypt notað svarthvítt sjónvarp – það fyrsta á heimilinu. Það þótti dáldið sport í skólanum að vera eini krakkinn sem átti sjálfur sjónvarpstæki…

En hvernig væri að Seðlabankastjóri reyndi þetta á nýjan leik: að tvinna saman skuldabréfaútgáfu og happdrætti?