Öfug sálfræði

Öfug sálfræði er gríðarlega vanmetið fyrirbæri í stjórnmálum. Dæmi um það mátti sjá þegar Samfylkingin kaus milli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Össurar Skarphéðinssonar um árið. Össur var furðusterkur meðal flokksmanna, miðað við það sem gerðist meðal almennra kjósenda. Það var staðfest í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri.

Í veikri von um að geta haft áhrif á úrslit kosninganna, kom hver Sjálfstæðismaðurinn á eftir öðrum fram í fjölmiðlum eða á bloggi og útskýrði fyrir krötum að eina vitið væri að velja Össur. Samkvæmt þeim var Össur geysiöflugur leiðtogi, sem tryggja myndi Samfylkingunni glæsta sigra – en með Ingibjörgu biði útskúfun og fylgishrun.

…og hvaða áhrif skyldi nú þessi áróður hafa haft? Jú, auðvitað gulltryggði hann sigur Ingibjargar Sólrúnar. Hér hefði þó ekki væri nema agnarlítill skilningur á fyrirbærinu öfug sálfræði komið að góðum notum.

Að öðru og alls ótengdu máli…

Upp á síðkastið hefur verið talsverð spenna innan Vinstri grænna varðandi ákveðin mál innan ríkisstjórnarinnar. Sumir hafa jafnvel haft áhyggjur af því að stjórnarsamstarfið kunni að vera í hættu.

Af því tilefni hafa margir velviljaðir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar úr röðum Samfylkingarinnar ákveðið að leggja sitt af mörkum til að útskýra fyrir samstarfsflokknum hvað beri að gera. Og það sem meira er – ég er viss um að allt þetta fólk telur sig vera að gera mikið gagn með skrifum sínum. Svona er heimurinn nú skrýtinn.