Eins og margoft hefur komið fram á þessum vettvangi, finnst mér Tímaritavefur Landsbókasafnsins vera frábær! Hef stundum sent inn óskalista með blöðum sem mér finnst tilfinnanlega vanta og hvort sem ægivaldi mínu er að þakka eða einhverju öðru þá hefur mikið af því efni nú ratað inn á vefinn.
Ein nýjasta viðbótin er Mánudagsblaðið, sem kom út frá 1948-82. Mánudagsblaðið var talsvert frábrugðið „virðulegu“ dagblöðunum. Þar voru menn lengi vel kjaftforari og stóðu fyrir aggressíva pólitík sem var blanda af hægristefnu, popúlisma og tortryggni í garð útlendinga. Það er mjög mikilvægt að fólk sem fjallar um söguna gleymi ekki blöðum eins og Mánudagsblaðinu. Annars geta menn fengið þá ranghugmynd að íslensk þjóðmálaumræða hafi bara snúist um skylmingar Magnúsar Kjartanssonar og Eykons á góðri íslensku og með skynsamlegum rökum.
Undir rest var Mánudagsblað Agnars Bogasonar (leiðrétt) þó orðið rýrt í roðinu. Síðasta árið, 1982, komu bara út fjögur tölublöð með löngu millibili (gætu reyndar verið fimm, en eitt vantað í innskönnunina). Þarna var blaðið orðið afar sérkennilegt. Jens Guð skrifaði drjúgan hluta þess með poppgagnrýni – og úthúðaði m.a. íslenskum tónlistarmönnum fyrir að stela erlendum lögum.
Í öðru blaði ársins var viðtal við danska fatafellu sem starfað hafði hér á landi og kvartaði yfir því að ætlast væri til þess að hún stundaði vændi. Ágætis upprifjun fyrir þá sem halda að strippið hafi byrjað á Íslandi 1998.
Aprílblaðið er grófast. Þar er aðalfréttin um ættleiðingar erlendra barna sem eru tldar hræðileg ógn við þjóðina sem beri að stöðva hið fyrsta.
Sömuleiðis er forvitnilegt að lesa leiðara þar sem fyrirhuguðu kvennaframboði í Rvík er fundið allt til foráttu. Pistillinn „Tilfinningarugl“ er verulega kúnstug lesning…