Skilnaður

Í margra ára gömlum grínþætti í sjónvarpinu var par látið standa uppi við altarið hjá presti í kirkju og skilja með mikilli viðhöfn. Þetta þótti ægilega fyndið. Gott ef Laddi var ekki presturinn og endaði á orðunum: „Þú mátt lemja brúðina“ – eða e-ð álíka.

En þótt hugmyndin hafi þótt fyndin, var hún e.t.v. ekki svo galin (fyrir utan þetta með barsmíðarnar).

Í nýjasta fréttabréfi Ásatrúarfélagsins lýsir Kjalnesingagoðinn Jóhanna Harðardóttir skilnaðarathöfn sem hún stóð fyrir nýverið. Hjón höfðu ákveðið að slíta tíu ára sambandi í góðu. Í stað þess að láta nægja að skrifa undir pappíra á hlaupum og henda inn til sýslumanns, fengu þau goðann til að skipuleggja athöfn þar sem hjónabandinu var slitið á táknrænan og fallegan hátt og nýtt upphaf tók við.

Mér finnst þetta snjallt og enn einu sinni sannast að heiðingjarnir eru langflottastir.