The Damned United

Þegar ég var í sagnfræðinni í Háskólanum fyrir rúmum áratug drýgði ég sumarhýruna með því að þjálfa ræðulið framhaldsskólanema fyrir góðan pening. Ekki beinlínis sú vinna sem ég er stoltastur af – en ég var hins vegar helvíti góður í því og var kominn upp í fínt tímakaup undir rest.

Einhverju sinni var ég á bar, talsvert drukkinn, þar sem ég hitti náunga úr málfundafélaginu í Versló sem svipað var ástatt um. Við fórum að ræða málin og eftir skamma stund vorum við búnir að tala okkur að þeirri niðurstöðu að Verslingar ættu að ráða mig til að þjálfa MorfÍs-liðið þeirra. Hugmyndin var svo galin að okkur fannst hún frábær.

Í MorfÍs-heiminum hefði þessi ráðning verið á pari við það ef HSÍ hefði gert Staffan Olson að landsliðsþjálfara Íslands. Verslingum var meinilla við mig og mér var meinilla við þá og sérstaklega ræðuliðið þeirra. Skólarnir töldu sig báðir hafa þróað sinn eigin stíl, sem væri sá eini rétti og að ræðustíll hinna væri lélegur og leiðinlegur. (Óinnvígðir áttu samt erfitt með að greina muninn.) Hugmyndin var sem sagt dauðadæmd, en ef ég hefði haft blað og blýant þarna um kvöldið hefði ég líklega skrifað undir samning… Verslingurinn var reyndar minna drukkinn og sá að hann yrði stjaksettur í Ofanleitinu ef hann myndi dirfast að kynna Lúsífer til sögunnar sem næsta þjálfara og lét málið niður falla.

The Damned United eftir David Peace frá árinu 2006 er skáldsaga um menn sem fengu álíka vonda hugmynd, en ákváðu að kýla á hana. Hún byggir á raunverulegum atburðum (og fylgir sögulegum staðreyndum vel), þegar kjaftaskúmurinn Brian Clough gerðist knattspyrnustjóri Englandsmeistara Leeds United.

Clough hataði Leeds United eins og pestina og sú afstaða var gagnkvæm. Clough vildi ráða öllu sjálfur, en Leeds var rótgróðið félag með skrifræði og hefðir. Og Clough tók við um leið og hatursmaður hans Don Revie lét af embætti – og ætlaði að umbylta öllu á einni nóttu. Allt við ráðninguna var galið og niðurstaðan hörmuleg.

Clough var líka alltaf fullur, sem aftur getur skýrt þá ákvörðun hans að segja já…

The Damned United er besta fótboltaskáldsaga sem ég hef lesið. Sú langbesta. Nú er víst búið að kvikmynda hana og myndin er víst frábær.

Lesandi sem ekki hefur áhuga á enska boltanum og fótboltasögu almennt mun rífa hár sitt og skegg. Við hinir getum ekki lagt hana frá okkur. Samt fjallar hún líka um aðra og (eftir því hvernig á það er litið) stærri hluti en fótbolta. Auðvitað – allar góðar skáldsögur gera það.

En ekki missa af þessari.