Forsíðufréttin

Forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er stórundarleg. Þar heimtar Árni Sigfússon milljarð króna frá ríkinu til að gera höfn. Ef ríkissjóður snarar ekki fram þessum eittþúsund milljónum á mestu niðurskurðartímum seinni áratuga, þá er það víst tómur þvergirðingsháttur stjórnmálamanna.

Annars staðar í fréttinni kemur reyndar fram að samkvæmt gildandi lögum, er þessi hafnargerð ekki í verkahring ríkisins. Það skiptir bæjarstjórann í Reykjanesbæ litlu máli, þar sem þeim hafi verið lofað peningunum.

Ekkert í fréttinni bendir til þess að neinir samningar séu um þessa þátttöku ríkisvaldsins. Framkvæmdir eru hins vegar í fullum gangi og hafa verið lengi. Á maður virkilega að trúa því að hafnarsamlagið suður með sjó ráðist í að byggja stórskipahöfn upp á munnlegt vilyrði ráðherra fyrir milljarði króna? Hvort er þetta dæmi um fullkomið ábyrgðarleysi eða botnlausa frekju?

Nú fá einstaklingar ekki að kaupa sér tveggja herbergja íbúð án þess að fara í gegnum greiðslumat. Hvernig væri að útbúa svipað kerfi fyrir óráðsíusveitarfélög?