Ein af verri hugmyndum seinni ára í íslenskum stjórnmálum er sú að skynsamlegt sé að skipa ópólitíska ráðherra. Sumir, þar á meðal Borgarahreyfingin, hafa meira að segja heimtað utanþingsstjórn sem að öllu leyti yrði skipuð ópólitískum ráðherrum. Hugmyndin gengur út á að slíkir ráðherrar séu svo ofboðslega faglegir og því farsælli í starfi en labbakútarnir úr flokkapólitíkinni.
Þetta er tóm tjara. Það gildir nákvæmlega það sama um stjórnmál og önnur störf, að menn verða að kunna eitthvað til verka í því sem þeir eru að sýsla við. Ráðherrar eru stjórnmálamenn, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr. Það að telja kunnáttuleysi í stjórnmálum sérstaka dyggð þegar kemur að ráðherradómi er því álíka gáfulegt og að velja mann í handboltalið vegna þess að hann kunni hvorki að grípa né kasta.
Vinstristjórnin sem mynduð var snemma á árinu sem minnihlutastjórn og sótti sér svo umboð í kosningum, kaus að kippa tveimur „ópólitískum“ ráðherrum með sér. Ég er svo sem enginn sérstakur aðdáandi Gylfa Magnússonar, en hann hefur þó plumað sig ágætlega – ekki vegna þess að hann sé reynslulaus í pólitík heldur þrátt fyrir þá staðreynd. Ástæðan er ekki hvað síst sú að Gylfi er fljótur að læra og er strax farinn að kunna aðeins inn á stjórnmál.
Ragna Árnadóttir er hins vegar flopp. Mál hælisleitendanna sem vísað var úr landi er ótrúlegt klúður (ég ætla að gefa mér að það skýrist af aulagangi ráðherra frekar en fólsku). Ég leyfi mér að fullyrða að enginn stjórnmálamaður með meira en ársreynslu af alvöru pólitík hefði staðið svona að verki. Það getur hins vegar vel verið að embættismönnum finnist afgreiðslan rétt og eðlileg. Ragna Árnadóttir er líka embættismaður ekki pólitíkus.
Mörgu stuðningsfólki ríkisstjórnarinnar sárnar að horfa uppá stjórnarliða bíta í tunguna á sér í stað þess að gagnrýna ráðherra í málinu. Það er skiljanlegt.
Hér er hins vegar pólitískur spádómur: Dagar Rögnu Árnadóttur sem dómsmálaráðherra eru senn liðnir. Framganga hennar í þessu flóttamannamáli hefur gert það að verkum að hún er lifandi dauð í embætti. Allar líkur eru á að breytingar verði gerðar á ríkisstjórninni innan skamms – líklega í kringum áramót. Í þeim hrókeringum munum við fá nýjan dómsmálaráðherra. Sennilegamun ráðherrum fækka úr tólf í ellefu – sem þýðir að Gylfi Magnússon verður eini utanflokkaráðherrann í stjórninni.
Ég ætla líka að spá því að við útskiptin muni forystufólk ríkisstjórnarinnar setja upp alvarlegan svip, lofsyngja störf dómsmálaráðherra og segjast hafa lagt hart að henni að halda áfram. Niðurstaðan verður hins vegar kynnt sem „persónuleg ákvörðun“ Rögnu – og líklega vísað til þess hversu erfitt það hafi verið fyrir hana þegar mótmælendur tóku sér stöðu fyrir utan heimili hennar. Sniff, sniff.
* * *
(Uppfært kl. 17:15) – Sé af viðbrögðum við færslunni og eftir að hafa lesið hana yfir aftur að mér hefur ekki tekist nægilega vel upp í orðalagi. Ég á auðvitað ekkert með að kalla Rögnu Árnadóttur „flopp“, enda var ætlunin ekki að gera lítið úr persónu hennar. Það sem ég vildi sagt hafa er að sú tilraun að skipa ópólitískan ráðherra hafi verið flopp og við þá skoðun stend ég. Biðst afsökunar á að hafa orðað þetta svona klaufalega.