Sólstjakar

Um daginn lauk ég við að lesa fyrstu jólabókina. Það er alltaf dálítið sérstök tilfinning.

Bókin sem varð fyrir valinu var Sólstjakar eftir Viktor Arnar Ingólfsson, sem hefur alltaf verið í einna mestu uppáhaldi hjá mér af íslensku krimmahöfundunum. Til þessa hefur Viktor Arnar skipt um söguhetjur milli bóka, en í Aftureldingu (sem nefndist Mannaveiðar í sjónvarpsgerð sinni), kynnti hann til sögunnar teymi lögreglumanna sem augljóslega áttu að koma við sögu í fleiri en einni bók.

Í Sólstjökum eru nýbúa-streitarinn Birkir Li og átvaglið Gunnar mættir aftur til leiks. Og væntanlega ekki í síðasta sinn.

Sögusvið bókarinnar er að miklu leyti sendiráð Norðurlandanna í Berlín, sem lýst er af þeirri verkfræðilegu nákvæmni sem kalla má höfundareinkenni Viktors Arnars. Eins og í Flateyjargátu og Engum sporum snýst fléttan um atburði á tveimur tímaskeiðum. Sagan rennur vel og ekki er gripið til fjarstæðukenndra tilviljanna.

Sem fyrr, er Viktor Arnar næstum því of mikið góðmenni til að skrifa blóðugar morðsögur. Samúðin með morðingjum jafnt sem fórnarlömbum er ærin, eins og í fyrri verkum. Það kemur því ekki á óvart þegar sá myrti reynist vera fúlmenni sem ekki átti neina ættingja eða ástvini á lífi. (Hey, þetta er ekki spoiler – þetta kemur fram á fyrstu 4-5 blaðsíðunum.)

Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif sjónvarpsþættirnir uppúr Aftureldingu kynnu að hafa á þessa bók. Persóna Gunnars var leikin af Ólafi Darra í þáttunum og það er ekki laust við að myndin af honum sitji eftir í kollinum og sé jafnvel farin að móta persónuna í bókunum. Birkir Li – aðalsöguhetjan – var hins vegar skrifaður út úr sjónvarpsseríunni (líklega vegna þess að ekki hefur fundist íslenskur karlleikari af asískum uppruna). Það var skaði fyrir þættina, enda persónan með þeim frumlegri í íslensku glæpasagnaflórunni.

Sólstjakar eru ekki minnisstæðasta bók Viktors Arnars. Til þess er hún of hefðbundin miðað við sumar hinna bókanna sem hafa verið sérlega frumlegar. Þetta er þó vel skrifuð og spennandi glæpasaga sem mun væntanlega falla í kramið. Birkir Li, Gunnar og Anna réttarmeinafræðingur eru komin til að vera.

Þar sem aðalstarf höfundarins er að sjá um upplýsingamál Vegagerðarinnar, má sjá þá þá jákvæðu hlið á niðurskurðinum í samgöngumálum og þar með fækkun útgáfudaga Framkvæmdafrétta Vegagerðarinnar að kannski fáum við nýja bók strax um jólin 2010?

Join the Conversation

1 Comment

 1. Hæ,hæ. Ég var að google-a bókina Sólstjakar og sá svo síðuna þína bara allt í einu. Ég var nefnilega að leita af svörum úr bókinni, ég á að lesa þessa bók fyrir skólann og er að fara í próf úr henni á morgun. Mér persónulega finnst þessi bók alveg hundleiðinleg haha, svo langdregin.. Bara alls ekki mín bók.
  Það fyrsta var að ég fékk bókina hvergi, hún var bara hvergi til því allir menntaskóla krakkar réðust á hana fyrir skólann. Ég fékk loksins bók (kennarinn minn á hana) Þetta er geðveikt mikilvægt próf en ég veeeit að ég mun falla, ég er komin á blaðsíðu 216 af 286 og hef ekki glóru um hvað ég er að lesa haha… (stress hlátur).. Er lesblind á hágu stigi og stærðfræðiblind og svona leiðindar dót.. svo þetta er ekkert létt fyrir mig og sérstaklega að klára svona mikla bók á stuttum tíma. Auðvitað veit ég að þú getur ekkert gert en daaauð langaði að segja þér þetta fyrst þú værir að tala um þessa bók og svona. En þú heppinn haha. Ég bara skil þetta ekki, fléttan er bara ENGIN í þessari bók… þú gætir spurt mig spurningar úr bókinni og veistu ég bara gæti ekki svarað þeim því ég veit ekkert um hvað ég er að lesa.. pældu í því að sitja í marga KLUKKUTÍMA og lesa og fá ekkert út úr því. Eeeeen vildi bara deila þessu með þér, er alls ekki að reyna að vera leiðinleg og eyðileggja þessa fallegu bók hehe.
  Er 18 ára reykjavíkur mær.

  P.S. Ég kíkji aldrei á póstinn minn, facebookaðu mig ef þig langar að svara mér hehe 🙂

  -Rosalega flott síða, er að fíla nafnið „um tilgangsleysi allra hluta,,

  Kveðja, Rakel Ösp bech G.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *