Hamborgarinn og pizzusneiðin

Núna keppast menn við að rifja upp þegar Davíð Oddsson át fyrsta McDonalds-hamborgarann. Það var pínlegt augnablik.

Annað og ekki síður merkilegt atvik úr matarsögunni var þegar Íslendingar ákváðu að kenna Evrópubúum að éta skyndibita og Pizza 67 gerðist alþjóðleg keðja.

Ólafur Ragnar át fyrstu pizzasneiðina á Strikinu. Illu heilli ekki með hníf og gafli, heldur stakk hann upp í sig aðeins of heitri sneiðinni, með aðeins of seigan ostinn – og marði í sundur með framtönnunum á forsíðu danskra dagblaða.

Í mínum huga byrjaði íslenska útrásin með þessari myndatöku.

Join the Conversation

18 Comments

 1. Það tók nú ekki nema nokkrar vikur fyrir þessa útrásarvíkinga að fara lóðbeint á hausinn. Leigðu eina hæð á hóteli og menn hlóu af þessum fíflum.

  Hljómar kunnulega 🙂

 2. Já! svei mér þá… nú gráta vinstrisinnar og „umhverfissinnar“ þurrum tárum yfir ástandinu í landinu. Allt að fara til helvítis og það hlakkar í sumum.

  Hvað í ósköpunum er kátlegt við það að McDonalds sé að hverfa af landi brott
  Þar er ódýrt að borða, þar er hægt að fá hollt salat og börnum finnst frábært að fara þangað.

  Nei.. það á bara að vera til íslenskir, fokdýrir staðir sem ALLIR eiga að fara á. sbr. þröngsýnin í sumum sem segja að íslenskt grænmeti sé best í heimi (sick!) íslenskt lambakjöt best í heimi, íslenska vatnið það hreinasta o.s.frv. Þetta hefur oft heyrst í röðum VG (t.d. Jóni B., Steingrími og Svandísi).

  Þó ég þoli ekki sjálfstæðismenn og samfylkinguna, þá get ég ekki beðið eftir kosningum svo hægt sé að kjósa svona talibana burt, líkt og Jón Bjarnason, Svandísi S og Álfheiði Ingad.

  Ég held að margir hugsi eins og ég. þ.e. geta bara ekki hugsað sér að kjósa VG út af talibönunum í þeirra röðum.

 3. Voðaleg beiskja er þetta…

  Mér finnst reyndar fall McDonalds hér á landi vera stórmerkilegt rannsóknarefni. Varla er hægt að kenna efnahagsástandinu eða ríkisstjórn um það – því að staðurinn í Aðalstrætinu lokaði í góðærinu miðju. Þá þótti nægilega fréttnæmt að miðbær Reykjavíkur gæti ekki lengur státað af slíkum stað. Það rataði jafnvel í fréttir í útlandinu. Hvað verður þá sagt núna?

  Annars mun nú varla mikið breytast. Heldur ekki sami rekstraraðilinn áfram að halda úti hamborgarastað undir öðru nafni. Verður ekki eini munurinn að móðurfyrirtækið í Bandaríkjunum fær ekki greitt fyrir afnotin af nafninu?

 4. Var ekki ástæðan slæmur rekstur rekstraraðilans og fasteignabrask? Ég býst við því að McDonalds snúi aftur innan árs þegar nýr aðili tekur við „franchisinu“. Í millitíðinni er ágætt að geta gortað sig af McDonalds leysinu á Íslandi.

 5. Guðjón, ég sá ekki betur en að ein aðalástæðan fyrir því að hætt var með MacDonalds hafi verið af því að það var svo dýrt að kaupa af þeim hráefni. Það er því ekki ólíklegt að á nýja staðnum verði allavega svipað verð.

  Annars þá er andúð mín á MacDonalds aðallega byggð á einu atriði: Bragðinu.

  Einnig kemur þar sterkt inn að MacDonalds lét hrekja burt ágætis hamborgarastað sem var í Kringlunni til þess að þeir gætu verið einir á Stjörnutorgi með, það sem þeir kalla á vafasömum forsendum, hamborgara.

 6. Nei, ég held reyndar að það séu ótrúlega margir á sama máli og Guðjón: séu í hjarta sínu á sömu skoðun og VG í veigamiklum atriðum, en geta ekki hugsað sér að kjósa flokkinn vegna stefnu Steingríms, Svandísar, Jóns og Álfheiðar í málefnum skyndibita…

  Maður er alltaf að heyra um þetta.

 7. Já mikið asskoti rétt Stefán.. og ekki gleyma Ömma í þessari upptalningu.

  Minni á að Steingrímur lagði blessun sína yfir eftirlaunafrumvarpið!! Hversu vinstri er það?

 8. „Good times maður. Hver skyldi annars hafa vígt a) fyrsta Burger King staðinn á Íslandi? b) Fyrsta Serrano’s staðinn í útlöndum?“

  Varðandi Serrano, þá var það einhver gömul sænsk kona, sem hangir í verslunarmiðstöðinni að ég tel alla daga (gerir sennilega lítið annað). Við gáfum fyrstu burrito-ana og hún hafði auðvitað heyrt af því og var mætt fyrir utan staðinn klukkutíma fyrir opnun.

 9. Kjötið í borgunum ágætu var reyndar lengi vel frá Íslandi, sbr. http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=1809633 (Mbl. 1994) og http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3565841 (Mbl. 2004).

  Ég man eftir fréttum fyrir nokkrum árum þess efnis að Lyst hafi „þurft“ að hefja „tímabundinn innflutning“ á kjöti frá Þýskalandi í staðinn fyrir íslenska kjötið vegna einhverra erfiðleika. E.t.v. stóðu þessir erfiðleikar svona lengi yfir

  Það getur reyndar komið niður á sama stað þótt hráefnið sé innlent. Vegna smæðar landsins eru fáir ísl. framleiðendur sem leggja á sig að fá gæðavottun frá alþjóðlegum skyndibitakeðjum. Þess vegna hafa sérleyfishafa hér á landi oft ekki val um hvaða birgja þeir skipta við. Þessi eini sem fengið hefur vottunina getur þá sett upp hvaða verð sem er.

  Þessi hreini og fallegi kapítalismi virkar svo illa á Íslandinu einu saman, en það er annað mál þegar Ísland er hluti af stærra markaðssvæði. Eins og það er með aðild sinni að EES. EES veitir sérleyfishöfum McD’s, Subway o.fl. tækifæri til að velja á milli birgja sem fengið hafa gæðavottorð.

 10. Ég veit ekki til þess að ríkisstjórnin eða VG hafi lagt á það sérstaka áherslu að reka McDonalds úr landi. Þetta er allavega frekar furðuleg afsökun fyrir því að kvarta yfir ríkisstórninni á bloggi sem fjallar ekkert um hana.

  Nema náttúrulega kjósendur VG séu ólíklegri til að borða þar, þó það sé með öllu óvíst. Hvort skorturinn á viðskiptum hins mikilvæga „talibana“ markaðshóps hafi hrakið fyrirtækið úr landi. Það hlýtur þá að skrifast á ímyndarvanda fyrirtækisins og hinn frjálsa markað.

 11. Guðjón, ég hnaut um þessa fullyrðingu:

  …Þar er ódýrt að borða, þar er hægt að fá hollt salat og börnum finnst frábært að fara þangað.
  …“

  Hvernig í andsk… kemstu að þeirri niðurstöðu að það sé ódýrt að borða þar??? (tvær af þremur fullyrðingum réttar gera ekki setninguna rétta)

  Ef ég fer á McD með 3 börnum og konunni, kostar það töluvert meira en að fara á ágætis pizzastað, eða þokkalegan stað í 101 Rvk! Þegar sama fjölskylda fór á McD í kaupmannahöfn kostaði það innan við helming af því sem það kostar hér (m.a.s. eftir gengishrun!)

  Ég tel að McD sé að fara einmitt vegna þess að þeir eru EKKI ódýrir, í öðrum borgum geta þeir státað af því að vera meðal ódýrustu veitingastaða (og geta þess vegna boðið upp á óbragðið), en það er titill sem þeir hafa aldrei náð á Íslandi!

 12. Ég flæktist einu sinni um borg í Norður-Englandi með tveimur sanntrúuðum múslimum, en þegar við ætluðum að fara að borða vandaðist málið því að félagar minir vildu hvergi borða af ótta við að svínakjöt væri í boði (og eflaust ýmislegt annað sem trúin bauð þeim að borða ekki).

  Hver var niðurstaðan? Jú, við fórum á McDonalds. Bókstafstrúarmennirnir höfðu nefnilega kynnt sér stranga staða fyrirtækisins og vissu að þar yrði ekki reynt að svindla svínakjöti ofan í því.

  Þannig að ef McDonalds er að loka á Íslandi er það a.m.k. ekki Talibönum að kenna.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *