Leikur ársins (b)

Stærsti leikur ársins gæti farið fram annað kvöld (eða reyndar strangt til tekið í kvöld, þriðjudagskvöld). Öfugt við hinn yfir-hæpaða leik Liverpool og Manchester United, hefur þessi viðureign litla athygli fengið í fjölmiðlum. Hún er þó mögulega upp á líf og dauða.

Um er að ræða viðureign Chester og Barrow í enska bikarnum. Á laugardag skildu þau jöfn. Nú verður leikið til þrautar. Ósigur gæti verið lokanaglinn í líkkistu Chester City.

Fótboltanördar sem lesa þessa síðu reglulega, vita allt um Chester. Félagið er rekið af glæpamanni. Féll niður í utandeildina ásamt okkur Luton-mönnum síðasta vor og má teljast ljónheppið að hafa ekki þá þegar verið gert upp. Eigandinn sviksami náði hins vegar að redda sér enn eina ferðina, en gat þó ekki skotið sér undan 25 stiga frádrætti. Núna, þegar meira um 40% mótsins er lokið er liðið búið að skrapa inn 15 stig. Fall niður um deild er óumflýjanlegt.

Chester City FC hefur minni rekstrarforsendur en vísitölu íslenska fjárfestingarfélagið. Liðið hefur skuldaklyfjar á bakinu, fær þúsund manns á leik en heldur úti fullri atvinnumennsku! Um daginn tilkynnti stjórn utandeildarinnar að Chester yrði að standa skil á greiðslum til tveggja félaga sem það skuldar ekki síðar en síðdegis í dag. Ella ætti liðið það á hættu að vera rekið úr deildinni og yrði í kjölfarið leyst upp.

Síðdegis var svo tilkynnt um loka-loka-sénsinn. Chester hefur tæpar þrjár vikur til að borga. Annars er þetta búið.

Það þýðir að bikarleikurinn á morgun ræður líklega úrslitum fyrir afdrif Chester. Vinni liðið, fær það bónusgreiðslu frá knattspyrnusambandinu sem fer langt með að dekka þessa bráðaskuld. Annars er ekkert nema svartnættið framundan.

Það sem gefur sögunni aukatvist, er sú staðreynd að eigandafólið hjá Chester átti áður Barrow – og setti það félag svo rækilega á hausinn að telja má kraftaverk að það sé lífs í dag. Það verður því verulega sérstök stemning á Deva Stadium í mikilvægasta leik ársins…

* * *

(Uppfært: 27.10.) Jæja, Chester tapaði 0:4. Stór nagli í líkkistuna…