Frambókin í BMM

Bókin mín um sögu Knattspyrnufélagsins Fram hefur verið til sölu á skrifstofu félagsins frá því í vor og í fatahreinsuninni Úðafossi undanfarnar vikur. Þar sem líður að jólabókaflóði hefur hins vegar komið til tals að bókin mætti fást víðar.

Ég hafði samband við Bókabúð Máls og menningar á Laugaveginum og Pennann/Eymundsson og kannaði hvort verslanirnar væru til í að taka bókina í umboðssölu. Undirtektir voru jákvæðar á báðum stöðum, en hjá Pennanum er svo mikið umstang og pappírsvinna sem fylgir þessu að ég á alveg eftir að sjá hvað ég nenni að gera. (Sjálfur hef ég enga peningalega hagsmuni af því að bókin seljist, en vill vitaskuld að félagið nái sem mestu upp í kostnað.)

Bókabúð Máls og menningar var með mun minna skrifræði og hefur nú fengið tíu eintök til sölu. Útsöluverðið skilst mér að verði það sama og hjá Fram, 5.900 krónur. Það þýðir að gallhörðum Frömurum er bent á að kaupa sínar bækur í Safamýrinni (þá fær félagið alla upphæðina), en fótafúnir miðbæjarbúar geta snarað sér inn í búðina á Laugaveginum.

Núna fer ég að verða eins og óþolandi bókarhöfundarnir sem mæta í sífellu í búðirnar, kanna hvort staflinn hafi minnkað og tuða við staffið yfir að þeirra verk sé ekki nógu sýnilegt…

Sé líka á Gegni að Borgarbókasafninu hefur þegar tekist að glata einu eintaka sinna af Frambókinni. Er það ekki gæðastimpill ef farið er að hnupla ritinu? Tek líka eftir því að ekkert bólar á því að Landsbókasafnið sé með bókina á skrá. Varla er Oddi að klikka á skylduskilunum?

Join the Conversation

7 Comments

 1. Þetta er ekki mikið mál, ég stóð í þessu fyrir þrem árum. Þetta er bara spurning um að skrifa út kreditnótu fyrir þeim eintökum sem þú skilur eftir og svo aðra á móti fyrir þau eintök sem búðin skilar tilbaka (sem við að sjálfsögðu gerum ekki ráð fyrir að gerist!).

  Svona bækur seljast og auðvitað á hún að fást sem víðast.

 2. Njah, þetta er nú aðeins meira mál. Ég þyrfti t.d. að koma sýningareintaki af bókinni á innkaupastjóra sem myndi í kjölfarið úrskurða um hversu mörg eintök mættu fara inn í hverja verslun Pennans/Eymundson. Svo þyrfti ég eða e-r frá Fram að koma eintökunum í hverja og eina verslun – því það er ekki miðlæg dreifing. Það eru nokkuð margir snúningar.

  Sjáum til, kannski nenni ég þessu. En lesendur þessarar síðu vita þó amk hvert hægt er að fara.

 3. Fyrrnefnda tekur ekki langa stund, síðarnefnda er vænti ég samningsatriði við útgefanda. En ekkert sem ekki má yfirstíga.

  Ég a.m.k. mæli með því að þú komir bókinni að sem víðast.

 4. Þessi þarfa bók á erindi við alla landsmenn og ég trúi ekki öðru en að hún seljist í bílförmum.

 5. Þessi skriffinnska er áreiðanlega ekkert gígantísk miðað við að viðskiptavinurinn sé fyrirtæki sem vinnur við að dreifa bókum. Það er hins vegar óhagræði af henni fyrir aðila sem eru sjálfir að dreifa bókum sínum (og stundum án endurgjalds, eins og tilviki Stefáns).

 6. Mætti bjóða Frömurum að hafa bókina til sýnis og sölu á Kaffifélaginu, Skólavörðustíg 10, ásamt öðrum útvöldum geislaplötum, dvd myndum og bókum? Skrifræðið á Kaffifélaginu er í algjöru lágmarki og Skólavörðustígurinn miklu skemmtilegri en Laugavegurinn. (Reyndar er Valur líka betri en Fram, en það er önnur Ella.)
  Hafirðu áhuga máttu senda mér línu á uppgefið netfang.

 7. Jájá, mikil hugsjón í að skrifa sögu Fram og allt gott um það að segja.

  En þá kemur í hugann annað stórveldi sem nýlega var fjallað um á þessari síðu. „Saga McDonald’s á Íslandi“, sú bók myndi gefa út í aðra hönd.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *