Hvernig virkar greiðslujöfnun?

Það er nú á mörkunum að maður nenni að setja sig inn í þetta nýja greiðslujöfnunarkerfi, en líklega verður maður að láta sig hafa það. Úr því að öll húsnæðislán eru sjálfkrafa flutt yfir í þetta kerfi, er víst betra að vita út á hvað það gengur.

Það vantar ekki umfjöllunina um hvort og þá hvernig þessi breyting muni gagnast fólki í greiðsluerfiðleikum. Minna hefur farið fyrir því að rakið sé hvaða máli (ef nokkru) þetta muni skipta fyrir þá sem ekki eru í slíkri stöðu.

Nú er Mánagötuheimilið með fremur lágar húsnæðisskuldir frá Íbúðalánasjóði. Þær hafa eitthvað hækkað í takt við verðbólguna, en ekkert sem veldur neinum vandræðum. Það virðast því tveir kostir í stöðunni:

i) að hringja í ÍLS og afþakka þessa breytingu.

ii) aðhafast ekkert, fá einhverja smálækkun á greiðslubyrðinni, en borga þá það sem nemum mismuninum inn á höfuðstólinn.

– Hvor valkosturinn er skynsamlegri?

Join the Conversation

13 Comments

 1. ,,…eitthvað hækkað í takt við verðbólguna…“ Segjum að þú hafir tekið 40 ára verðtryggt lán hjá íbúðalánasjóði í janúar 2005 þá hefur það lán hækkað um 48% fram til dagsins í dag, það er hressileg hækkun

 2. Réttast er að græja þetta undireins á heimasíðu ÍLS – af hverju að eyða tíma í síma. Tekur innan við mínútu að frátöldum tímanum sem tekur að grafa upp lánsnúmerið. 😉

 3. Já, 48% væri hressileg hækkun.

  Þetta lán er hins vegar frá miðju ári 2004 og tekið til tuttugu ára. Mér sýnist að eftirstöðvarnar séu svona 15% yfir upphaflegu fjárhæðinni.

 4. Ég er í sömu stöðu og þú og veit ekki mitt rjúkandi ráð. Er með tvö íbúðarlán, eitt til 15 ára og eitt til 40 ára og skilst í fljótu bragði að ég spari mér 15 þúsund á mánuði í byrjun ef ég geri ekki neitt. En það er samt freistandi að afþakka breytinguna enda hefi ég það ágætt þrátt fyrir allt tal um kreppu.

 5. Þetta er tiltölulega einfalt. Ef að þú ræður við greiðslubyrðina í dag þá er þetta eins og að pissa í skóinn sinn. Þér hlýnar í 3 ár en eftir það fer þér að kólna all rækilega og því meir sem launavísitalan hækkar (ekki síst ef að þú ert opinber starfsmaður sem að hefur ekki lækkað í kreppunni). Ef að þaunaþróun verður skv áliti Hagfræðistofnunar Háskólans þá endaru með því að borga 15-30% meira með þessari leið. Allt í boði Árna Páls.

 6. Við ætlum leið ii) Alltaf gott að borga niður höfuðstólinn. Bara passa að gera það á gjalddaga lánsins, þá fara allar þær krónur beint á höfuðstólinn.

 7. Leið i) og ii) er sama leiðin.
  Það sem greitt er inn á höfuðstól láns í greiðslujöfnun ráðstafast fyrst inn á jöfnunarreikninginn sem heldur utan um það sem eftir stendur af hverri afborgun miðað við upphaflega skilmála.
  Sjá spurningar og svör á island.is

 8. Nei, Guðrún. Leið i og ii er fráleitt sama leiðin. Ég er búinn að afþakka. Leið Árna Páls er góð og gild fyrir fólk sem nær ekki (eða mjög illa) endum saman. En með því að þiggja greiðslujöfnunarvísitöluna þurfum við á endanum að borga (samtals) mun meira en ella – nema því aðeins að kaupmáttur aukist lítið eða ekki neitt næstu 30-40 ár.

  Ég mæli með því að gerast áskrifandi að Fréttabréfi Ingólfs H. Ingólfssonar á http://www.spara.is. Og þeir sem ekki eru í vandræðum (Stefán og Anna) geta stytt lánstímann ótrúlega mikið með því að borga inn á höfuðstólinn mánaðarlega, eins og Hildigunnur nefnir.

 9. PS: Jú, reyndar rétt hjá þér, Guðrún. En að borga mismuninn mánaðarlega er dálítið flóknara í framkvæmd og í því fólgin talsverð aukavinna, en það eitt að þurfa að muna þessa greiðslu gæti auðvitað verið góð hugarleikfimi 🙂

 10. Sæll Jón
  Já, ég hefði kannski átt að taka fram að þessar tvær leiðir hafa sömu fjárhagslegu niðurstöðuna en önnur er mun fyrirhafnarmeiri en hin 🙂

  Varðandi hvort maður borgar meira eða minna þegar upp er staðið – lánið sjálft heldur alltaf áfram að tikka á upphaflegum skilmálum, ef (og vonandi verður svo innan 30-40 ára) greiðslujöfnunarvísitalan leiðir til hærri afborgunar en neysluverðsvísitalan, þá gengur það sem umfram er greitt til lækkunar á jöfnunarreikningnum þar til hann er fullgreiddur og eftir það fer umframgreiðslan inn á höfuðstólinn.
  Svo er líka hægt að segja sig úr úrræðinu þegar það verður óhagstæðara að þiggja það en ekki.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *