Áfram heldur hið æsispennandi val á eftirlætisliði Stefáns á HM 2010. Þessi bloggsyrpa hefur þegar vakið mikla athygli fótboltanjarða. Aðrir lesendur þessarar síðu rífa hár sitt og skegg – eins og ég gerði raunar sjálfur í kvöld yfir Kastljósviðtalinu við siðblinda útlenska bankamanninn. Nema hvað, vindum okkur þá í lið 6-11:
6. Chile
Ef ég hefði lent í Mastermind-sjónvarpsþættinum þegar ég var tólf ára, hefði saga HM í fótbolta orðið fyrir valinu. Allir þeir sem hafa stúderað sögu HM eru pínkulítið veikir fyrir HM í Chile 1962. Ef Heimsmeistarakeppnirnar væru James Bond-myndir, þá er HM í Chile George Lazenby – gaurinn sem almúginn lítur á sem labbakút, en innvígðu sérfræðingarnir snobba dáldið fyrir.
Chile 1962 er „týnda heimsmeistarakeppnin“. Hún fór ótrúlega lágt. Brasilía var sigurstranglegust og vann, þó ekkert sérlega afgerandi. Evrópsku liðin sem náðu einhverjum árangri voru frá Austurblokkinni, sem dró enn úr áhuga vestrænna fjölmiðla og fleira mætti telja til. Í fljótu bragði man ég ekki eftir neinni berulega bitastæðri bók um Chile-keppnina.
Dugar nördalegur áhugi á 46 ára gamalli heimsmeistarakeppni til að halda með Chile? Njah, þetta er svo sem ágætlega skemmtilega spilandi lið. Verða líklega hraðir og ógna fram á við, en munu alltaf tapa gegn stóru strákunum í sextán liða úrslitum eða þar um bil.
Niðurstaða: Chile verður ekki uppáhaldslið, en mætti mér að meinalausu fara upp úr riðlunum.
7. Danmörk
Um miðjan níunda áratuginn var danska liðið eitt það magnaðasta sem fram hefur komið, ekki hvað síst ef smæð landsins er höfð í huga. Danmörk í dag á hins vegar lítið sameiginlegt með liðinu fyrir aldarfjórðungi. Undir eðlilegum kringumstæðum myndi ég samt hneigjast til að halda með Dönum… smáþjóðarelementið og allt það – EN ég bý á Íslandi. Um leið og íslensku lýsendurnir fara að blaðra um frændur okkar Dani, danska dýnamítið og flytja hundruðustu hnyttnu fréttina af því hvað dönsku stuðningsmennirnir séu sniðugir, á ég eftir að fá grænar bólur.
Niðurstaða: Danmörk verður ekki uppáhaldslið, verður helst að falla út í riðlakeppninni geðheilsu minnar vegna.
8. Ghana
Það er merkileg staðreynd varðandi afrísku knattspyrnuna að Ghana hefur um áratugi verið eitt helsta stórveldi álfunnar. Engu að síður tókst landinu alltaf að mistakast að komast á HM, þangað til síðast.
Ghana hefur líklega sterkustu knattspyrnuinnviði álfunnar og hefur um langt skeið verið með afburða ungmennalandslið. Sjálfseyðingarhvötin er þó oft rík hjá liðum sem þessum. Þannig ætti ekki að koma á óvart þótt leikmenn verði komnir í kjaradeilu við knattspyrnusamband sitt í miðju móti. Ef ég ætlaði að veðja á Afrískt lið, kæmi Ghana líklega helst til greina.
Niðurstaða: Ghana verður ekki uppáhaldslið, en assgoti væri þó skemmtilegt ef við sæjum fyrsta afríska liðið í undanúrslitum.
9. Grikkland
Hahaha… enn ein gömul kærasta! Fyrir EM 2004 átti ég við mikinn valkvíða að stríða og hafði enn ekki ákveðið uppáhaldslið þegar flautað var til fyrsta leiks. Þegar fimm mínútur voru liðnar af upphafsleik Portúgala og Grikkja ákvað ég að Grikkir skyldu vera mínir menn. The Rest is History…
Bjútíið við Grikkland er hversu mikið þeim verður úr litlu. Liðið hefur engar stjörnur að heitið geti og gerir sér fyllilega grein fyrir því. Það er alltaf betra en þegar veikari liðin setja allt sitt traust á fræga kallinn í hópnum. Að þessu sögðu, hafa Grikkir litlu flugi náð frá 2004 og brandarinn farinn að verða nokkuð gamall.
Niðurstaða: Grikkland verður ekki uppáhaldslið, en ég mun fagna sérhverjum 1:0 sigri þeirra og vil endilega sjá þá komast upp úr riðlinum.
10. England
Þegar líður að stórmótum í fótbolta togast á í mér tvö andstæð sjónarmið. Í aðra röndina vona ég að England komist ekki í úrslitakeppnina, til að maður sé laus við óværuna. Í hina röndina vil ég að tjallar komist á EM og HM, til að þeir geti talað sig upp í óraunsæjar væntingar og upplifað sár vonbrigði þegar allt fer á versta veg. Ástæðan er einföld: íslenskir íþróttafréttamenn!
Englendingadekrið hér heima er með hreinum ólíkindum. Stöð tvö sport sýnir sérhvern skítaleik enska landsliðsins og jafnvel vináttuleiki á sama tíma og stórleikir fara fram í forkeppninni. Ég má ekki einu sinni til þess hugsa hversu hátt hlutfall ungra íslenskra karlmanna kemur til með að hala með Englendingum á þessu móti.
Niðurstaða: England verður ekki uppháldslið, raunar má segja að mótið hefjist ekki fyrir alvöru fyrr en Englendingar verða sendir heim – helst þannig að einhverjir lykilmanna þeirra bresti í grát og skæli eins og smábörn fyrir framan vægðarlausa myndatökumenn.
11. Fílabeinsströndin
Fílabeinsströndin var með flott lið á síðasta HM. Gætu alveg náð fínum árangri núna líka – en hey, ég er ekki að fara að halda með Didier Drogba á fótboltavellinum.
Niðurstaða: Fílabeinsströndin verður ekki uppáhaldslið, mega þó mín vegna alveg komast eitthvað áfram.
Og nú hefur mælendaskrá verið opnuð…